Hlýnunin gæti valdið kuldakasti

Gervihnattamynd NASA sem sýndir lægðina sem færði vetrarveður yfir stóran ...
Gervihnattamynd NASA sem sýndir lægðina sem færði vetrarveður yfir stóran hluta Bandaríkjanna. AFP

Fjölmargir íbúar á austurströnd Bandaríkjanna þar sem miklar vetrarhörkur hafa verið síðustu daga spyrja sig nú að því hvað hafi orðið af hnattrænni hlýnun. Þá hafa efasemdamenn um loftslagsbreytingar notað kuldann í áróðursstríði vestanhafs. Vísbendingar eru þó um að hlýnunin valdi kuldakastinu.

Í Buffaló í New York-ríki er útlit fyrir að snjókoma verði meiri á þremur dögum í borginni en á heilu ári undir venjulegum kringumstæðum. Hitastig í öllum fimmtíu ríkjum Bandaríkjanna hefur einnig farið niður fyrir frostmark í óvenjumiklum kulda sem gert hefur. Þriðjudagsmorguninn var sá kaldasti á landsvísu frá árinu 1976.

Þrátt fyrir þessar vetrarhörkur er mögulegt að árið í ár verði það heitasta á heimsvísu frá því að hitastigsmælingar hófust árið 1880 að mati vísindamanna bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA og Haf- og loftslagsrannsóknarstofnunar Bandaríkjanna.

„Aðeins lítill hluti af yfirborði lands á jörðinni er að ganga í gegnum tiltölulega svalt ár og svo vill til að það er austurströnd Bandaríkjanna,“ segir Bob Henson, veðurfræðingur við loftslagsrannsóknarstofnunina NCAR í Boulder í Kóloradó.

Greinilega orðin vön hlýnandi veðurfari

Mögulegt er talið að hlýnandi veður valdi kuldanum vestanhafs núna. Stór hluti af hlýnun jarðarinnar á sér stað í höfunum. Atburðarásin nú hafi hafist með afskaplega miklum hlýindum í Kyrrahafi sem varð til þess að fellibylurinn Nuri myndaðist. Hann mjakaði sér í norðurátt og olli miklum hlýindum í Alaska og á norðurskautinu.

„Kalda loftið þurfti að fara eitthvað og það gerði það: niður til Bandaríkjanna,“ segir Kevin Trenberth, loftslagsfræðingur við NCAR. Hann rekur þessa þróun til þess að um fimm prósent aukning hafi orðið í magni vatnsgufu yfir höfunum miðað við tímabilið fyrir árið 1970. Hærra rakastigið knýi áfram fellibylji eins og Nuri og Hayan sem gekk yfir Filippseyjar í nóvember í fyrra.

Þá benda vísindamenn á þá staðreynd að meðaltalshlýnun síðustu hundrað ára sé ein gráða á Fahrenheit og hún dreifist ekki jafnt um alla jörðina. Því sé ólíklegt að fólk finni fyrir hlýnuninni. Óvenjuleg hlýindi í Alaska og norðanverðu Kyrrahafi fari langleiðina með að jafna út kuldann í öðrum hlutum Bandaríkjanna.

Tom Peterson, yfirvísindamaður við Haf- og loftslagsrannsóknarstofnunina, segir ennfremur að kuldaköst í Bandaríkjunum séu að verða fátíðari.

„Það er ljóst að ef fólk er að kvarta yfir kuldaköstum sem eru miklu vægari en þau sem voru á 8. og 9. áratugnum þá bendir það til þess að við séum orðin vön hlýrra veðurfari,“ segir Peterson.

Frétt NBC af kuldakastinu vestanhafs

mbl.is

Bloggað um fréttina

Er með virkilega vel með farinn Volkswa
Er með virkilega vel með farinn Volkswagen Polo 1,2 ltr til sölu Kóngablár og mj...
EIGUM ALLSKONAR STIGA Á LAGER
Sjá fjölmargar gerðir á: http://www.sogem-sa.com/stairs Sími 615 1750 Sjá einni...
Skrifstofuhúsnæði Bolholti 4
Til leigu er skrifstofurými, alls um 110 fermetrar, í austurenda á 5. og efstu ...
Golfbílar
Mjög vel útbúnir bílar, með ljósum/háum ljósum, stefnuljósum, flautu, skriðvörn,...