Schumacher er lamaður og getur ekki tjáð sig

Michael Schumacher á skíðum í Madonna di Campiglio,á Ítalíu.
Michael Schumacher á skíðum í Madonna di Campiglio,á Ítalíu. AFP

Michael Schumacher er lamaður og þjáist bæði af minnisglöpum og talerfiðleikum, segir vinur ökuþórsins, Philippe Streiff. „Hann er í hjólastól og getur ekki talað,“ segir Streiff í viðtali við franska útvarpið. Breska blaðið Guardian greinir frá þessu.

Michael Schumacher er með höfuðáverka eftir skíðaslys um jólin í fyrra. Honum var haldið sofandi í langan tíma á sjúkrahúsi en var fluttur heim í september. 

Streiff er vinur Schumcahers en hann var líkt og Schumacher formúlu-ökumaður áður. Streiff er í hjólastól eftir slys árið 1989. Hann segir ástand Schumachers grafalvarlegt. „Honum fer fram en er algjörlega háður öðrum. Þetta er mjög erfitt og hann getur ekki talað.“

„Líkt og ég þá er hann í hjólastól, lamaður. Hann glímir við minnisglöp og talvanda.“

Talskona Schumacher segir að ummæli Streiffs lýsi hans persónulegu skoðun.

Jean-Francois Payen, einn þeirra lækna sem önnuðust Schumacher á sjúkrahúsinu, sagði í síðasta mánuði að batinn gæti tekið mörg ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert