Fann hundinn ári eftir fellibylinn

Rúmlega 7 þúsund manns létu lífið í hamförunum, fjölmargir misstu …
Rúmlega 7 þúsund manns létu lífið í hamförunum, fjölmargir misstu heimili sín og þá er margra saknað, bæði manna og dýra. AFP

Kona frá Filippseyjum hefur fundið hundinn sinn aftur, ári eftir að fellibylurinn Haiyan reið yfir eyjarnar. Rúmlega 7 þúsund manns létu lífið í hamförunum, fjölmargir misstu heimili sín og þá er margra saknað, bæði manna og dýra.  

Hin níu ára gamla Bunny týndist eftir flóð í kjölfar fellibyljarins. „Ég missti aldrei vonina. Guð bjargaði Bunny frá storminum, af hverju ætti hann að láta hana deyja eftir hann,“ segir Ailyn Metran, eigandi hundsins, í samtali við AFP-fréttaveituna.

Fundu hundinn loks í ruslatunnu

Metran og eiginmaður hennar fundu dýrið í síðasta mánuði þegar þau leituðu í ruslatunnu í miðbæ Tacloban. „Við sáum óhreinan flækingshund sem líktist henni. Ég kallaði á hana og hún kom,“ segir Metran. Bað hundurinn um að hún héldi á honum.

Metran vinnur hjá tryggingafyrirtæki. Hún flúði heimili sitt í Tacloban áður en fellibylurinn náði til borgarinnar en skildi þrjá hunda eftir. Tveir þeirra drukknuðu en Bunny lifði af. Þegar eigendur hennar sneru aftur tveimur dögum síðar fundu þau hana kjökrandi í svefnherbergi í íbúðinni.

Fjölskyldan neyddist aftur á móti til að yfirgefa borgina vegna flóðbylgju sem fylgdi í kjölfarið. Þau gátu ekki tekið Bunny með sér og skildu hana því eftir hjá ættingjum. Hundurinn týndist þó fljótlega.

mbl.is