Blanc bannað að koma til Singapúr

Julien Blanc í viðtali á CNN
Julien Blanc í viðtali á CNN Skjáskot af CNN.com

Yfirvöld í Singapúr hafa ákveðið að banna flagaraþjálfaranum Julien Blanc að koma til landsins og halda þar námskeið eftir að yfir átta þúsund manns skrifuðu undir áskorun þar að lútandi til stjórnvalda. Þar er hann sakaður um að hvetja til kynferðislegs ofbeldis og að niðurlægja konur.

Í síðustu viku bönnuðu bresk stjórnvöld Blanc að koma til landsins en von er á honum hingað til lands næsta sumar.

Samkvæmt frétt AFP hafa fleiri ríki Asíu, þar sem hinn 26 ára gamli flagari ætlaði að halda námskeið, ýjað að því að hann fái ekki vegabréfsáritanir. 

Í tilkynningu frá yfirvöldum í Singapúr kemur fram að ofbeldi gagnvart konum og öðrum einstaklingum brjóti gegn lögum landsins.

Blanc er flagaraþjálfari hjá fyrirtæki sem nefnist Real Social Dynamics. Hann á að kenna mönnum hvernig þeir eigi að heilla konur en þær aðferðir sem hann boðar hafa verið harðlega gagnrýndar enda eiga þær lítið sameiginlegt með daðri heldur minna fremur á ofbeldi.

Á YouTube hafa verið birt myndskeið af námskeiðum hans þar sem hann hvetur menn til þess að beita valdi, bæði andlegu og líkamlegu, til þess að þvinga konur til samlífs.

Samkvæmt upplýsingum á vef Real Social Dynamics á Blanc að hafa numið við svissneskan háskóla áður en hann flutti til Los Angeles.

Blanc var neyddur til þess að stytta heimsókn sína í Ástralíu fyrr á þessu ári þegar vegabréfsáritun hans var afturkölluð vegna mótmæla og svipað var uppi á teningnum í Kanada.

Innanríkisráðherra Bretlands ákvað að banna Blanc að koma til landsins eftir að yfir 160 þúsund manns skrifuðu undir áskorun þar að lútandi. Eins hafa Japan og Suður-Kórea lýst því yfir að afar ólíklegt sé að hann fái að koma þangað óski hann eftir því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert