Boðað til þingkosninga í Svíþjóð

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar. AFP

Fjárlagafrumvarp sænsku ríkisstjórnarinnar var fellt í atkvæðagreiðslu á sænska þinginu í dag. 153 þingmenn studdu frumvarp ríkisstjórnarinnar en 182 þingmenn kusu með fjárlagafrumvarpi stjórnarandstöðunnar. Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar hefur boðað til nýrra þingkosninga 22. mars.

Stjórnarkreppan í Svíþjóð hófst þegar leiðtogar Svíþjóðardemókrata tilkynntu að þeir hygðust ekki styðja fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Matthias Karlsson, starfandi leiðtogi flokksins, sagði á blaðamannafundi í gær að Svíþjóðardemókratarnir myndu vinna að því að stöðva all­ar rík­is­stjórn­ir og all­ar fjár­laga­til­lög­ur sem stuðla að fjölg­un inn­flytj­enda.

Í kjölfarið kallaði Löfven til fundar með leiðtogum hinna stjórnarandstöðuflokkanna en að fundinum loknum lýstu flestir leiðtoganna því yfir að þeirra flokkar myndu áfram styðja eigið frumvarp. Niðurstaða kosninganna kom því ekki á óvart.

Mun ekki segja af sér

Í gær hótaði Löfven að segja af sér ef til þess kæmi að frumvarp ríkisstjórnarinnar yrði fellt enda hygðist hann ekki fylgja eftir frumvarpi stjórnarandstöðunnar. Á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í dag tilkynnti Löfven hinsvegar að hann muni ekki segja af sér.

Segir hann kosningu dagsins hafa fært Svíþjóðardemókrötunum vald sem ekki sé ásættanlegt og að því hafi ríkisstjórnin ákveðið að kalla til nýrra þingkosninga, sem fara munu fram 22. mars 2015.

Vilja vinna saman áfram

Svíþjóðardemókratarnir tvöfölduðu fylgi sitt, úr 5,7% í 12,9%, í þingkosningunum sem fram fóru í september. Flokkur Löfven, Jafnaðarmannaflokkurinn, og Umhverfisflokkurinn mynduðu ríkisstjórn með samtals 38% atkvæða á bakvið sig. Hægri­flokk­ur­inn (Moderatarna), Frjáls­lyndi flokk­ur­inn, Miðflokk­ur­inn og Kristi­leg­ir demó­krat­ar fengu 39,3%. Því hefur verið ljóst frá upphafi að komið gæti til þess að fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar yrði fellt.

Jafnaðarflokkurinn og Umhverfisflokkurinn munu reka kosningabaráttur sínar í sitthvoru lagi en leiðtogar flokkana hafa þó gefið það skýrt út að flokkarnir vilji áfram vinna saman.

„Það verður val á milli okkar sem viljum nútímavæða Svíþjóð og þeirra sem sjá ekki raunveruleg vandamál Svíþjóðar,“ sagði Gustav Fridolin, leiðtogi Umhverfisflokksins á blaðamannafundinum í dag.

„Við munum ganga til kosninga með það fyrir augum að skólarnir, atvinnuvegir og umhverfið sé tekið til greina á undan skattalækkunum.“

Fridolin sagði að Umhverfisflokkurinn muni aldrei leyfa Svíþjóðardemókrötum að stjórna ferðinni. „Við erum tilbúin að berjast fyrir því sem flestir í Svíþjóð vilja, að landið sé opið og mannúðlegt.

Bæði Fridolin og Löfven segja að ríkisstjórnin muni áfram gegna starfi sínu fram til kosninganna í mars.

mbl.is

Bloggað um fréttina