Sennilega boðað til nýrra kosninga

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar. AFP

Sennilegast er að boðað verði til nýrra kosninga vegna stjórnarkreppunnar í Svíþjóð. Þetta er haft eftir stjórnmálafræðingnum Stig-Björn Ljunggren á fréttavefnum Thelocal.se. Kosningarnar verði líklega í byrjun febrúar að hans mati. Síðast var kosið í september.

Fram kemur í fréttinni að sú staða sem komin er upp í sænskum stjórnmálum sé án fordæma en ríkisstjórn Svíþjóðar, sem er minnihlutastjórn jafnaðarmanna og græningja ndir forsæti Stefans Löfven, hefur ekki tekist að afla fjárlagafruvarpi sínu nægjanlegs stuðnings. Hægriflokkarnir hafa hins vegar lagt fram eigið frumvarp sem Svíþjóðardemókratar hafa lýst yfir stuðningi við. Hvorki fylking vinstriflokkanna né hægriflokkanna hefur meirihluta á þingi og því eru Svíþjóðardemókratar í oddastöðu.

Ljunggren segir að ríkisstjórnin muni líklega senda fjárlagafrumvarp sitt aftur til fjárlaganefndar þingsins og þar með fresta afgreiðslu málsins fram yfir jól. En það breyti þó engu um stöðuna. „Forsætisráðherrann hefur í raun og veru sagt af sér en hann getur ekki gert það formlega fyrr en 29. desember þegar hann getur boðað til nýrra kosninga.“ Hann segist telja að nýjar kosningar verði haldnar í byrjun febrúar. 

Takist Löfven ekki að fá fjárlagafrumvarp sitt samþykkt er líklegast að hann fari frá segir Jenny Madestam stjórnmálafræðingur. Forseti þingsins gæti þá beðið hann um að reyna að mynda nýja ríkisstjórn án þátttöku græningja en hún telur ekki líklegt að Löfven sé spenntur fyrir því. Það gæti leitt til þess að græningjar leituðu eftir samstarfi við hægriflokkana. Þó sumir telji það óhugsandi þar sem græningjar séu vinstrifokkur bendir Madestam á að þeir hafi í gegnum tíðina samið um samstarf sitt á hvað.

Löfven gæti reynt að semja um samstarf við einhverja af minni hægriflokkunum eins og Frjálslynda flokkinn eða Miðflokkinn en þeir hafi hins vegar hingað til hafnað því. Hugsanlega færi því best á því að boðað yrði til nýrra kosninga. Kæmi til þess telur Madestam að stóru flokkarnir tveir, Jafnaðarmannaflokkurinn og Hægriflokkurinn, myndu líklega báðir bæta við fylgi sitt þar sem kjósendur myndu sækja í þá flokka sem væru líklegastir til þess að stuðla að stöðugleika. Hún telur að mögulegar kosningar yrðu líklega í lok mars.

mbl.is