Löfven iðrast einskis

Stefan Löfven sér ekki eftir neinu.
Stefan Löfven sér ekki eftir neinu. mbl.is/AFP

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, segist ekki sjá eftir neinu þrátt fyrir sögulegan ósigur í þingkosningum um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar.

Í viðtali við sænska ríkisútvarpið sagði hann enga tryggingu fyrir því að núverandi ástand á þingi muni batna eftir komandi þingkosningar sem ríkisstjórnin hyggst boða til vegna ósigursins.

„Ég trúi því að ég hafi gert það sem ég gat til að koma á samræðum en það var ekki mögulegt. Bæði Umhverfisflokkurinn og Jafnaðarflokkurinn eru viljugir til samvinnu þvert á flokkslínur. Ég vil ekki rista blokkarpólitíkina í stein.“

Löfven, sem er leiðtogi Jafnaðarflokksins, segist hafa íhugað ýmsar aðrar leiðir en nýjar kosningar en neyðst til að nýta sér þann kost þegar ljóst var að stjórnarandstaðan væri ekki tilbúin til að semja.

„Ég valdi kosningarnar af því að kort stjórnmálanna hefur verið teiknað upp á nýtt. Nú er bara spurning hvernig landinu verður stjórnað.“

mbl.is