Skammlífasta stjórn Svíþjóðar í átta áratugi

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, tilkynnti í gær að efnt yrði til þingkosninga 22. mars eftir að þing landsins felldi fjárlagafrumvarp minnihlutastjórnar Jafnaðarmannaflokksins og Umhverfisflokksins. Þar með var stjórn Löfvens fallin – aðeins tveimur mánuðum eftir að hún var mynduð. Hún er skammlífasta ríkisstjórn Svíþjóðar í rúm áttatíu ár, eða frá 1932 þegar stjórn Felix Hamrins, leiðtoga Þjóðarflokksins, var við völd í 49 daga. Þetta er einnig í fyrsta skipti í nútímasögu Svíþjóðar sem fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar er fellt á þinginu.

183 þingmenn greiddu atkvæði gegn stjórnarfrumvarpinu og 152 með því og fjárlagafrumvarp stjórnarandstöðunnar var samþykkt með 183 atkvæðum. Niðurstaðan kom ekki á óvart þar sem Svíþjóðardemókratar höfðu tilkynnt daginn áður að þeir hygðust fella stjórnarfrumvarpið og þar með stjórnina.

Stjórnmálaskýrendur sögðu að Löfven hefði aðeins haft tvo kosti í stöðunni og þeir hefðu báðir verið slæmir fyrir sænska jafnaðarmenn. Forsætisráðherrann hefði annaðhvort þurft að boða til kosninga eða reyna að semja við mið- og hægriflokkana sem voru við völd á síðasta kjörtímabili en biðu ósigur í þingkosningunum í september. Löfven vonaðist til þess að geta fengið einn eða fleiri borgaralega flokka til liðs við sig en í ljós kom að enginn þeirra léði máls á því að rjúfa samstöðu mið- og hægriflokkanna. Löfven hefði því þurft að leita eftir stuðningi allra mið- og hægriflokkanna fjögurra en þeir hefðu aldrei léð máls á því að styðja stjórn með aðild Umhverfisflokksins og Vinstriflokksins. Löfven hefði því þurft að slíta samstarfinu við Umhverfisflokkinn en það hefði getað komið jafnaðarmönnum í koll síðar ef sú staða kæmi upp að rauðgrænu flokkarnir gætu myndað samsteypustjórn.

Segja má að Löfven hafi veðjað á rangan hest þegar hann ákvað að mynda minnihlutastjórn með Umhverfisflokknum, án Vinstriflokksins, í von að einn eða fleiri miðflokkar fengjust til að verja hana falli síðar. Leiðtogar miðflokkanna höfðu sagt fyrir kosningarnar í september að þeir hygðust ekki vinna með Jafnaðarmannaflokknum en svo virðist sem Löfven hafi veðjað á þeir myndu ganga á bak orða sinna þegar á reyndi. Eftir að ljóst var að Svíþjóðardemókratar hygðust fella fjárlagafrumvarpið reyndi Löfven að semja við borgaralegu flokkana um málamiðlun í fjárlagadeilunni, en þá var það orðið of seint og samningsstaða forsætisráðherrans orðin mjög slæm.

Bendlaðir við nýnasisma

Í kosningunum í september fengu Jafnaðarmannaflokkurinn og Umhverfisflokkurinn 138 af 349 þingsætum. Vinstriflokkurinn fékk 21 sæti og jafnvel þótt hann gengi til liðs við stjórnina þurfti hún sextán sæti í viðbót til að fá meirihluta á þinginu.

Borgaralegu flokkarnir fjórir eru með alls 141 sæti og vantar 34 til að ná meirihluta. Svíþjóðardemókratarnir eru með 49 þingsæti en allir hinir flokkarnir hafa hafnað stjórnarsamstarfi við hann, m.a. vegna ásakana um að hann ali á kynþáttahatri.

Flokkurinn á rætur að rekja til hreyfinga sem voru bendlaðar við nýnasisma. Nokkrir forystumanna hans hafa verið sakaðir um kynþáttahyggju og einn þeirra sagði af sér fyrir síðustu kosningar eftir að birtar voru myndir af honum með armbindi nasista. Leiðtogi flokksins, Jimmy Åkesson, sem er í veikindafríi, hefur reynt að breyta ímynd flokksins með því að víkja frá stjórnmálamönnum sem hafa verið sakaðir um útlendingahatur eða stuðning við nasisma. Svíþjóðardemókratar eru oft sagðir vera hægriöfgaflokkur en ef horft er til annarra mála en málefna innflytjenda er hann miðflokkur, eins og Anders Sannerstedt, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann í Lundi, hefur bent á.

Spá 95.000 hælisumsóknum á næsta ári

Svíþjóðardemókratarnir tvöfölduðu fylgi sitt í kosningunum í september og fengu um 13% atkvæðanna. Flokkurinn hefur gagnrýnt stefnu sænskra stjórnvalda í málefnum innflytjenda og sagt hana „öfgakennda“. Nýleg viðhorfskönnun bendir til þess að um 25% sænskra kjósenda telji að Svíþjóðardemókratar hafi bestu stefnuna í innflytjendamálum.

Hælisumsóknum hefur fjölgað mjög í Svíþjóð á síðustu árum. Fjölgunin er einkum rakin til þess að stjórn mið- og hægriflokkanna ákvað að veita öllum hælisleitendum frá Sýrlandi dvalarleyfi í Svíþjóð. Sænsk yfirvöld sögðu fyrr á árinu að hælisumsóknirnar væru allt að 2.000 á viku. Flestir umsækjendurnir eru flóttamenn frá Sýrlandi en hælisleitendum frá Erítreu hefur einnig fjölgað.

Árið 2012 voru hælisumsóknirnar um 44.000, árið eftir 55.000 og í ár gert ráð fyrir að þær verði 83.000. Talið er að umsóknunum fjölgi í um að það bil 95.000 á næsta ári.

Svíþjóðardemókratar vilja að peningarnir, sem renna í þennan málaflokk, verði notaðir til að bæta velferðarkerfið og auka mannúðaraðstoð í öðrum löndum til að draga úr straumi flóttafólks. Að vísu er vandséð hvernig mannúðaraðstoð getur dregið úr flóttamannastraumi frá stríðshrjáðum löndum á borð við Sýrland.

Stefan Löfven (2. frá hægri) með Gustav Fridolin menntamálaráðherra, Åsa …
Stefan Löfven (2. frá hægri) með Gustav Fridolin menntamálaráðherra, Åsa Romson aðstoðarforsætisráðherra og Magdalenu Andersson fjármálaráðherra. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »