Nóg pláss fyrir flóttamenn

Fredrik Reinfeldt
Fredrik Reinfeldt AFP

Fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar og fráfarandi formaður hægri flokksins Moderate, Fredrik Reinfeldt, telur að það sé nægt pláss fyrir fleiri flóttamenn á Norðurlöndunum og hann útilokar að flokkurinn fari í samstarf með þjóðernisflokknum Svíþjóðardemókrötum.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali við Reinfeldt í danska blaðinu Politiken um helgina. „Það er ekkert pláss fyrir Svíþjóðardemókrata meðal borgaraflokkanna í sænskum stjórnmálum,“ segir Reinfeldt í viðtalinu. 

Reinfeldt hafnar því að Svíar taki við fleiri flóttamönnum en landið ráði við og segir að það sé ekki skortur á rými fyrir flóttamenn á Norðurlöndunum. Fólki sem er að flýja kúgun og stríðsátök. Hann spyr hvað flokkar eins og Svíþjóðardemókratar eigi við þegar þeir segja nóg komið. Eru Norðurlandabúar orðnir of margir? Það búi um 25 milljónir manna á Norðurlöndunum þar sem endalaust jarðnæði sé að finna. „Ég flýg oft yfir Svíþjóð og ég ráðlegg fleirum að gera slíkt hið sama. Þar er að finna endalausa akra og skóglendi. Það er meira pláss þar en þú getur ímyndað þér. Þeir sem halda því fram að landið sé fullt ættu að sýna hvar það er,“ segir Reinfeldt í viðtalinu við Politiken.
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert