Kennir áhöfninni um hvernig fór

Skipstjóri Costa Concordia, Francesco Schettino.
Skipstjóri Costa Concordia, Francesco Schettino. AFP

Skipstjóri skemmtiferðaskipsins Costa Concordia, sem sökk undan ströndum Ítalíu í janúar 2012, sagði í dag að ef hann hefði fengið viðvaranir frá áhöfn sinni og 30 sekúndur til, hefði mátt forða slysi, en 32 létu lífið þegar skipið sigldi upp á grjót.

Ummælin lét Francesco Schettino falla við réttarhöld vegna slyssins en hann hefur verið ákærður fyrir manndráp. „Við náðum næstum því að komast hjá grjótinu. Ímyndaðu þér hvað hefði verið hægt að gera á aðeins 30 sekúndum til viðbótar, ef ég hefði fengið allar upplýsingar,“ sagði hann, samkvæmt ítalska dagblaðinu Il Tirreno.

Skipstjórinn, sem á yfir höfði sér 20 ára fangelsisdóm, varði mestum tíma í dag við að kenna áhöfninni um hvernig fór og sagði að hann hefði ekki fengið nauðsynlegar upplýsingar þegar skipið nálgaðist eyjuna Giglio.

„Ég er viljugur til að axla einn hluta ábyrgðarinnar, en aðeins einn part,“ sagði hann.

Costa Concordia, sem er tvisvar sinnum stærri en Titanic var, sigldi á 16 hnútum og bar 4.229 einstaklinga frá 70 þjóðlöndum innanborðs þegar það sökk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert