Var kynlífsþræll í þrjú ár

Andrés prins og Virginia Roberts þegar þau hittust fyrst árið …
Andrés prins og Virginia Roberts þegar þau hittust fyrst árið 2001. Lengst til hægri er Ghislaine Maxwell sem kynnti Roberts fyrir Jeffrey Epstein.

Virginia Roberts, konan sem segist hafa verið neydd til að stunda kynlíf með Andrési Bretaprins, segist hafa verið í kynlífsþrælkun í þrjú ár. Andrés prins hafi verið einn af mörgum mönnum sem Jeffrey Epstein, vinur prinsins, neyddi hana til að stunda kynlíf með.

Ásakanir Roberts komu fyrst fram opinberlega árið 2007. Mail on Sunday birti þá ítarlegt viðtal við hana. Hin virðulegri blöð sögðu almennt ekki frá málinu, en það breyttist í lok síðasta árs þegar nafn Andrésar prins kom fram í dómsskjölum sem lögð voru fram í réttarhöldum í Bandaríkjunum.

Allir helstu fjölmiðlar heims tóku þá að fjalla um málið og breska konungsfjölskyldan neyddist til að svara þessum ásökunum. Talsmaður konungsfjölskyldunnar hefur vísað þeim á bug og segir ekkert hæft í þeim.

Hver er Virginia Roberts?

Virginia Roberts fæddist í Kaliforníu í Bandaríkjunum 1983. Fimmtán ára gömul var hún farin að vinna á veitingastað í eigu Donalds Trumps í Flórída. Stuttu eftir 15 ára afmælisdaginn hitti hún Ghislaine Maxwell, dóttur fjölmiðlamannsins Roberts Maxwells.

Faðir hennar lést voveiflega 1991 eftir að fjölmiðlaveldi hans hafði hrunið. Ghislaine Maxwell var á þeim tíma góð vinkona bandaríska kaupsýslumannsins Jeffreys Epsteins. Roberts segir að Maxwell hafi fengið hana til að vinna fyrir Epstein. Hún hafi boðist til að styðja hana til náms og boðið henni góð laun.

Starfsemi Jeffreys Epsteins verður tæplega lýst á annan hátt en að hann hafi rekið kynlífsþjónustu fyrir ríka og fræga fólkið. Roberts segir að á heimili hans hafi verið mikið af myndum af ungum nöktum stúlkum. Þegar hún kom þangað fyrst hafi henni verið fylgt inn í svefnherbergi Epsteins, en þar hafi hann legið nakinn.

Roberts segir að hann hafi spurt hana ítarlega um líf hennar og hún hafi sagt honum að hún hafi stungið af að heiman og að hún hafi notað e-töflur. „Þú ert slæm stúlka í fallegum líkama,“ segir Roberts að Epstein hafi sagt við hana.

Roberts segist í framhaldinu hafa verið þjálfuð til að þjóna vinum Epsteins. Hún hafi þegið greiðslur frá honum fyrir greiðann. „Jeffrey var lærifaðir minn. Mér fannst Ghislaine sýna mér vináttu. Við vorum eins og fjölskylda, horfðum á Sex And The City og borðuðum poppkorn.“

Hitti Andrés prins

Dag einn árið 2001 segir Roberts að hún hafi verið vakin og sagt að hafa sig til því nú stæði mikið til. Hún ætti að dansa við prinsinn. Síðan hafi verið flogið með hana til London þar sem hún hitti Andrés prins. Maxwell hafi spurt prinsinn hvað hann héldi að Roberts væri gömul. Hann hafi giskað á að hún væri 17 ára og þau hafi bæði hlegið að þessum spurningum.

Roberts lýsti síðan samskiptum við prinsinn. Þegar þau gengu upp á efri hæð hússins segir Roberts að hún hafi beðið Epstein að taka mynd af sér og prinsinum. Hún segir að prinsinn hafi síðan stundaði kynlíf með henni. Daginn eftir hafi Maxwell hrósað henni og Epstein hafi greitt henni 15.000 dollara fyrir að sofa hjá prinsinum.

Roberts segist aftur hafa hitt Andrés prins í New York um páskana 2001 og stundað kynlíf með honum. Síðast hafi hún hitt prinsinn á Jómfrúreyjum. Þar hafi Epstein staðið fyrir kynlífsorgíu sem nokkrar rússneskar stúlkur hafi tekið þátt í.

„Ég man að ég hugsaði að ég myndi aldrei upplifa eðlilegt líf að nýju. Jeffrey stjórnaði mér algjörlega. Ég var algjörlega á hans valdi og hugsaði aldrei um að flýja,“ sagði Roberts.

Vaknar enn með tárin í augunum

Þegar Roberts varð 19 ára bauð Jeffrey Epstein henni til Taílands þar sem hún átti að fá að læra nudd. Þar hitti hún mann frá Ástralíu sem hún varð ástfangin af. Þau giftust eftir stutt kynni og fluttu til Ástralíu. Þau eiga þrjú börn.

Jeffrey var árið 2008 dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir að reka kynlífsþjónustu og fyrir að hafa stundað kynlíf með stúlkum undir 16 ára aldri. Eftir að hann losnaði úr fangelsi heimsótti Andrés prins vin sinn Epstein. Mynd var tekin af þeim saman í New York árið 2011. Fjölmiðlar fjölluðu um það að prinsinn héldi áfram vinfengi við dæmdan kynferðisbrotamann. Þetta varð til þess að Andrés sagði af sér sem sérstakur viðskiptasendiherra Breta.

Þetta mál heldur hins vegar áfram að elta hann. Fjórar konur sem unnu hjá Epstein hafa höfðað mál í Bandaríkjunum. Milli jóla og nýárs komu fram dómsskjöl þar sem nafn prinsins er nefnt.

Talsmaður bresku konungsfjölskyldunnar hefur vísað ásökunum Roberts á bug. Það sama hafa aðrir gert sem hún hefur nefnt á nafn. Þeir hafa lýst henni sem lygara.

Roberts segir að hún þurfi nú aftur að þola ofbeldi líkt og hún hafi mátt þola þegar hún var á unglingsaldri. „Svona árásir eins og ég hef mátt þola eru einmitt ástæðan fyrir því að þolendur kynferðislegs ofbeldis kjósa að þegja. Ég ætla hins vegar ekki að láta þagga niður í mér.“

Roberts segist enn fá martraðir þegar hún hugsi um það sem Epstein gerði henni. Hún segist vakna upp með tárin í augunum. Hún segist vera að skrifa bók um lífsreynslu sína. Þar ætli hún að segja frá því sem valdamiklir menn, eins og Andrés prins, gerðu henni.

Þessi mynd var tekin af Andrési prins og vini hans …
Þessi mynd var tekin af Andrési prins og vini hans Jeffrey Epstein í New York árið 2011. Epstein hafði þá verið dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot.
Andrés prins er sonur Elísabetar drottningar og er fimmti í …
Andrés prins er sonur Elísabetar drottningar og er fimmti í erfðaröðinni. LEON NEAL
mbl.is