Segist hafa hitt drottinguna

Andrés prins og Virginia Roberts þegar þau hittust fyrst árið …
Andrés prins og Virginia Roberts þegar þau hittust fyrst árið 2001. Lengst til hægri er Ghislaine Maxwell sem kynnti Roberts fyrir Jeffrey Epstein.

Talsmaður Buckingham-hallar segir engin gögn sýna að Elísabet drottning hafi átt fund með konu sem segir Andrés prins hafa beitt sig kynferðisofbeldi er hún var unglingur.

Samkvæmt heimildum Sky-fréttastofunnar kom Andrés prins til Bretlandseyja á einkaþotu en hann hafði verið í skíðaferðalagi í Sviss. Ásakanir konunnar komu fram um helgina.

Buckingham-höll hefur birt tvær yfirlýsingar vegna málsins, en í þeirri fyrri er því neitað að nokkuð ósiðlegt hafi farið fram milli Andrésar og konunnar.

Konan heitir Virginia Roberts og segist hafa verið kynlífsþræll í þrjú ár. Faðir hennar sagði í viðtali við Daily Mail að hún hefði hitt drottninguna er hún var í heimsókn í London.

Talsmaður konungsfjölskyldunnar segir hins vegar ekkert styðja þær fullyrðingar konunnar. „Við höfum engin gögn um slíkan fund.“

Ásakanir konunnar komu fram í dómsskjölum í tengslum við dómsmál tengt ameríska milljarðamæringnum Jeffrey Epstein. Sá er dæmdur barnaníðingur og er vinur Andrésar prins. Prinsinn hefur m.a. verið gagnrýndur fyrir að hafa haldið áfram vináttu sinni við Epstein eftir að hann var látinn laus úr fangelsi árið 2009.

Andrés neitaði strax árið 2011 að hafa átt í kynferðissamböndum við konur sem tengdust Epstein.

Roberts heldur öðru fram. Hún segist hafa verið neyd til kynmaka við prinsinn á árabilinu 1999-2002 er hún var ólögráða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert