Reyndi að draga úr áhyggjum af evrusvæðinu

Franski forsætisráðherrann Manuel Valls.
Franski forsætisráðherrann Manuel Valls. AFP

Forsætisráðherra Frakklands, Manuel Valls, reyndi í morgun að draga úr áhyggjum Kínverja af evrusvæðinu í samtölum við þarlenda fréttamenn. Grikkland yrði þannig áfram hluti af svæðinu þrátt fyrir nýja ríkisstjórn landsins sem hyggst ekki fara að kröfum Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um frekari aðhaldsaðgerðir.

„Grikkland mun verða, verður að verða, áfram á evrusvæðinu. Nýr forsætisráðherra Grikklands hefur sagt að öðruvísi geti það ekki verið,“ sagði Valls. Vísaði hann þar til Alexis Tsipras, leiðtoga gríska vinstriflokksins Syriza sem sigraði þingkosningarnar í Grikklandi á dögunum. Valls sagði enga ástæðu til að hafa áhyggjur af því að Grikkir væru á útleið af evrusvæðinu en hann er staddur í opinberri heimsókn í Kína.

„Við verðum að hjálpa Grikkjum út úr erfiðleikunum sem þeir standa frammi fyrir. En á sama tíma verður Grikkland að virða skuldbindingar sínar, þannig virkar Evrópusambandið,“ sagði ráðherrann ennfremur. Fram kemur í frétt AFP að forsætisráðherra Kína, Li Keqiang, hafi spurt Valls að því hvort Grikkir ættu eftir að yfirgefa evrusvæðið á fundi þeirra í gær.

Valls hvatti Kínverja ennfremur til þess að fjárfesta innan Evrópusambandsins og sérstaklega í Frakklandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina