Ryksugaði hár eiganda síns

iRobot Roomba ryksuguvélmenni
iRobot Roomba ryksuguvélmenni Ljósmynd/Wikipedia

Suðurkóresk kona lenti í heldur óskemmtilegri reynslu á dögunum þegar sjálfvirkt „ryksuguvélmenni“ gerði atlögu að hárinu á henni þar sem hún lá sofandi á stofugólfinu. Konan vaknaði skelfingu lostin við að ryksugan hafði læst sig í hárið á henni og tókst henni ekki með nokkru móti að losa sig. Hún þurfti því að hringja á slökkviliðið, en starfsmenn þess komu og tókst að aðstoða hana úr prísundinni eftir um hálftíma aðgerðir. Sky News segir frá málinu.

Konan slapp við alvarleg meiðsli, en talsmaður slökkviliðsins sagði málið líklega vera það óvenjulegasta sem komið hefði á þeirra borð. Ryksugurnar eru venjulega búnar skynjurum sem eiga að beina þeim frá hindrunum, en svo virðist sem í þessu tilfelli hafi hann ekki gert greinarmun á hárinu og ryki.

Sjálfvirkar ryksugur af þessu tagi njóta mikilla vinsælda, en fram kemur í frétt Sky News að bandaríska fyrirtækið iRobot hafi selt yfir 10 milljónir slíkra tækja. Ryksugurnar eru fáanlegar hér á landi, og kosta frá tæplega 70 þúsund krónum samkvæmt vefsíðu iRobot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert