Var skellt í jörðina og lamaðist

Úr myndskeiði sem var tekið úr lögreglubifreið á vettvangi, sem …
Úr myndskeiði sem var tekið úr lögreglubifreið á vettvangi, sem lögreglan í Madison gerði opinbert.

Bandaríska alríkislögreglan (FBI) rannsakar nú mál lögreglumanns í Alabama sem hafði afskipti af indverskum karlmanni með þeim afleiðingum að sá síðarnefndi lamaðist að hluta. Lögreglumaðurinn hefur verið handtekinn og lögreglustjóri hefur lagt til að honum verði sagt upp störfum.

Þetta kemur fram á vef Washington Post.

Umrætt atvik átti sér stað 6. febrúar sl. Haft er eftir talsmanni FBI að stofnunin hafi komið að rannsókn málsins fljótlega eftir atvikið og er það rannsakað sem brot á borgaralegum réttindum. Niðurstöður FBI munu síðan verða sendar bandaríska dómsmálaráðuneytinu til umsagnar.

Maðurinn sem varð fyrir árás lögreglumannsins heitir Sureshbhai Patel og er 57 ára gamall. Hann er indverskur bóndi sem kom nýverið til Bandaríkjanna til að aðstoða sonarson sinn sem er fyrirburi og heilsuveill. 

Síðastliðinn föstudag var Patel var á göngu í hverfinu þar sem sonur hans býr í Madison, Alabama. Þetta var um klukkan 9 um morguninn. Lögreglumenn á vakt sáu Patel og höfðu af honum afskipti eftir að íbúi í hverfinu hafði hringt í lögregluna og sagt að hann hefði séð grunsamlegan mann á ferli, sem hafi verið að kíkja inn í bílskúra. Lögreglan sá Patel á göngu og taldi að íbúinn væri að tala um hann.

Örfáum mínútum síðar lá Patel óvígur á maganum en hann hafði hlotið alvarlega hálsáverka sem leiddu til þess að hann lamaðist að hluta. 

Lögmaður Patel hefur höfðað mál gegn lögreglunni í Madison og krefst skaðabóta. Hann heldur því fram að borgaraleg réttindi hans, sem séu varin í stjórnarskrá landsins, hafi verið brotin. Málið var höfað í gær.

Hank Sherrod, lögmaður fjölskyldunnar, segir að hann voni að málið muni leiða til þess að sannleikurinn komi í ljós. Einnig að það muni vekja athygli á því vandamáli sem Bandaríkjamenn standi frammi sem er hvernig lögreglan misbeiti valdi sínu.

„Hér er maður sem er algjörlega saklaus. Honum var misþyrmt og vonandi mun hann ganga aftur, en það er alls óvíst,“ segir Sherrod.

Larry Muncey, lögreglustjórinn í Madison, sagði á blaðamannafundi í gær, að hann hefði lagt til að annar af tveimur lögreglumönnum sem höfðu afskipti af Patel yrði rekinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert