Með kústsköft í stað vélbyssa

Þýskur leopard 2 skriðdreki
Þýskur leopard 2 skriðdreki Wikipedia

Þýsk herdeild sem starfar innan viðbragðssveitar NATO notaði máluð kústsköft með handföngum í stað vélbyssa á sameiginlegri heræfingu á síðasta ári vegna tilfinnanlegs skorts á raunverulegum vopnum. Viðbragðssveitin var sett á laggirnar vegna átakanna í Úkraínu og er ætlað að bregðast við með skömmum fyrirvara ef á þarf að halda.

Fram kemur á fréttavef Daily Telegraph að heræfingin hafi farið fram í Noregi í september. Herdeildina vantaði meðal annars töluvert af MG3 vélbyssum og skammbyssum. Var gripið til þess ráðs sem fyrr segir að mála kústsköft svört og festa þau meðal annars við brynvarin ökutæki þannig að þau líktust byssuhlaupum.

Haft er eftir þýska varnarmálaráðuneytinu að málið sé ekki alvarlegt. Umrædd ökutæki hafi verið hugsuð sem hreyfanlegar höfuðstöðvar og hafi hvort sem er ekki átt að vera vopnuð. Þá hafi herdeildinni verið útvegað nægjanlegt magn vélbyssa og skammbyssa eftir að æfingunni lauk. Samkvæmt fréttinni er þetta þó ekki í fyrsta sinn sem þýski herinn þarf að leysa málin vegna skorts á hergögnum. Þannig hafi verið greint frá því í síðasta mánuði að notaðist við venjulega sendiferðabíla til þess að flytja hermenn við æfingar í stað brynvarinna ökutækja vegna skorts á réttum tækjabúnaði.

Varnarmálaráðherra Þýskalands, Ursula von der Leyen, hafi ennfremur viðurkennt á síðasta ári að Þjóðverjar gætu ekki sinnt öllum skyldum sínum gagnvart NATO vegna alvarlegs skorts á búnaði. Samkvæmt skýrslu sem lögð hafi verið fyrir þýska þingið á síðasta ári væru aðeins 42 af 109 Typhoon orrustuþotum Þjóðverja til taks vegna skorts á viðhaldi. Að sama skapi væru aðeins 38 af 89 Tornado sprengjuflugvélum þýska flughersins í flughæfu ástandi og 280 af 406 Marten skriðdrekum nothæfir.

mbl.is

Bloggað um fréttina