Kóparnir eins og pokar af beinum

Fleiri hundruð vannærðum og veikum sæljónskópum hefur skolað á land í Kaliforníu. Þetta er þriðji veturinn í röð sem slíkt gerist. Dýrin eru mörg hver mjög horuð, líkust pokum af beinum.

Yfir 900 kópum hefur verið bjargað úr sjónum frá byrjun árs og þeim komið fyrir í dýraathvörfum víðsvegar um Kaliforníuríki þar sem hlúð er að þeim. Yfir 160 þeirra eru í umsjá Sjávarspendýramiðstöðvarinnar í Kaliforníu. Á degi hverjum koma allt að tíu kópar til miðstöðvarinnar og nú er útlit fyrir að bráðlega verði þar allt yfirfullt.

Sumir kópanna eru svo vannærðir að þeir hafa þurft að fá næringu í æð. Rifbeinin sjást greinilega, sem er óvenjulegt, þar sem þykkt fitulag hylur þau venjulega vandlega.

„Kóparnir verða viðskila við mæður sínar. Þeir eru vannærðir og horaðir, eins og pokar fullir af beinum,“ segir Shawn Johnson, yfirdýralæknir hjá Sjávarspendýramiðstöðinni.

Ekki er hægt að bjarga öllum kópunum. „Það er erfitt að koma hingað á morgnana og sjá að einhverjir hafa drepist um nóttina. Að þurfa að halda á nokkurra kílóa dauðum kópi niður í rannsóknarstofuna okkar er bara ... það er bara mjög erfitt.“

Í ár eru veiku kóparnir óvenjumargir. En hvað veldur? Í grein í Washington Post kemur fram að vísindamenn telji að hlýnun sjávar sé um að kenna. Hlýr sjórinn við strendurnar verður til þess að æti sæljónanna, m.a. sardínur, leitar dýpra í sjóinn. Mæður kópanna þurfa því að leita lengra eftir æti fyrir þá og skilja þá eftir á meðan. Þannig verða þeir viðskila við mæður sínar og tærast upp af vannæringu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert