Fyrsta aftakan fór fram

EPA

Í dag fór fram aftaka í Egyptalandi þar sem verið var að framfylgja dauðadómi í tengslum ofbeldismál sem komu upp í átökunum í landinu árið 2013 eftir að herinn steypti forsetanum Mohamed Morsi af stóli. Er þetta fyrsta aftakan vegna slíkra dóma sem fram fer í Egyptalandi.

Hundruð stuðningsmanna Morsis fengu dauðadóma eftir átökin við herinn. Réttarhöldin yfir þeim tóku skamman tíma og hafa Sameinuðu þjóðirnar lýst þeim sem sögulegum.

Mahmoud Ramadan var hengdur kl. 7 í morgun að staðartíma. Hann var dæmdur til dauða í fyrra fyrir að henda ungmennum fram af fjölbýlishúsi. Eitt þeirra lést.

Stuðningsmenn Morsis mótmæltu harðlega valdaráni hersins í landinu og mótmælaalda fór um landið. Mörg hundruð manns féllu í átökunum. Fleiri þúsund voru handteknir og mörg hundruð ákærðir.

14. ágúst árið 2013 varð blóðbað í Kaíró er lögreglan gerði áhlaup á mótmælendabúðir. Mörg hundruð stuðningsmenn Morsis féllu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert