Sakaðir um að hafa skotið vélina niður

Tvær þotur Malasyan Airlines fórust í fyrra, MH370 og MH17.
Tvær þotur Malasyan Airlines fórust í fyrra, MH370 og MH17. AFP

Taldar eru líkur á því að rússneska leyniþjónustan hafi líflátið rússneska hermenn sem eru grunaðir um að hafa skotið malasísku farþegavélina MH17 niður í austurhluta Úkraínu í júlí í fyrra.

Þetta er haft eftir ónafngreindum sérfræðingum sem vinna að rannsókn slyssins.

298 manns létu lífið þegar vél­in var skot­in niður og voru Hol­lend­ing­ar í mikl­um meiri­hluta. 

Hollenskir sérfræðingar fara fyrir rannsóknarhópnum. Þeir hallast að því að vélin hafi verið skotin niður með flugskeyti sem hafi verið skotið frá svæði sem var undir stjórn aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu, að því er fram kemur í Daily Mail.

Þar segir jafnframt að hingað til hafi ekki tekist að finna þá sem eru grunaðir um voðaverkin. Mögulegt sé að þeir hafi jafnvel verið myrtir af rússnesku leyniþjónustunni.

Rússnesk stjórnvöld hafa vísað öllum ásökunum á bug. Þau segja að Rússar hafi ekki komið nálægt árásinni. Rússneskir fjölmiðlar hafa kennt Úkraínumönnum um og segja að líkur séu á því að malasíska vélin hafi verið skotin niður af úkraínskri herþotu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert