Banna loftslagsbreytingar

Miami í Flórída. Hækkun yfirborðs sjávar af völdum hnattrænnar hlýnunar …
Miami í Flórída. Hækkun yfirborðs sjávar af völdum hnattrænnar hlýnunar mun hafa afdrifaríkar afleiðingar í för með sér fyrir Flórída. Wikipedia

Starfsmönnum umhverfisstofnunar Flórída hefur verið bannað að nota hugtökin „loftslagsbreytingar“ og „hnattræn hlýnun“í opinberum tilkynningum, tölvupóstum eða skýrslum. Strandríkinu Flórída stafar mest hætta af völdum loftslagsbreytinga í Bandaríkjunum vegna hækkandi yfirborðs sjávar.

Samtök rannsóknarblaðamanna í Flórída greindu frá þessu um helgina en rannsókn þeirra byggði á frásögnum fyrrverandi starfsmanna umhverfisstofnunar Flórída, ráðgjafa, sjálfboðaliða og gagna sem blaðamennirnir komust yfir. Bannið á notkun þessara hugtaka er sagt hafa haft áhrif á skýrslur, menntamál og stefnumótun hjá stofnuninni.

„Okkur var sagt að nota ekki nota ekki hugtökin „loftslagsbreytingar“, „hnattræn hlýnun“ eða „sjálfbærni“. Þeim skilaboðum var komið til mín og samstarfsmanna minna af yfirmönnum okkar hjá aðalskrifstofunni,“ segir Christopher Byrd sem starfaði sem lögfræðingur hjá aðalskrifstofu umhverfisstofnunarinnar í Tallahassee frá 2008 til 2013.

Fjalla um áhrifin en mega ekki nefna orsökina á nafn

Þessi óskráðu lög tóku gildi hjá stofnuninni eftir að repúblikaninn Rick Scott tók við sem ríkisstjóri árið 2011 og skipaði nýjan forstöðumann yfir stofnunina. Scott hefur ítrekað lýst því yfir að hann sé ekki sannfærður um að menn beri ábyrgð á loftslagsbreytingum þrátt fyrir vísindalegar rannsóknir sem sýna fram á hið gagnstæða.

Núverandi og fyrrverandi forstöðumenn umhverfisstofnunarinnar vildu ekki tjá sig um málið en upplýsingafulltrúi hennar hafnar því að slíkt bann við orðanotkun sé við lýði. Talsmaður ríkisstjóraembættisins tekur í sama streng.

Annar fyrrverandi starfsmaður stofnunarinnar segir hins vegar að starfsliðið hafi verið varað við því að nota þessi orð í skýrslum því að það myndi leiða til þess að verkefni þeirra fengju óæskilega athygli.

„Við vorum að fjalla um áhrif og efnahagslegar afleiðingar loftslagsbreytinga en samt megum við ekki vísa til þeirra,“ sagði starfsmaðurinn sem vildi ekki koma fram undir nafni.

Frétt samtaka rannsóknarblaðamanna í Flórída

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert