Verður Knox framseld til Ítalíu?

Knox og Sollecito segjast bæði saklaus en samkvæmt framburði þeirra …
Knox og Sollecito segjast bæði saklaus en samkvæmt framburði þeirra voru þau saman í annarri íbúð þegar Kerhcer var myrt. AFP

Hæstiréttur Ítalíu mun á miðvikudag taka fyrir mál Amöndu Knox, sem var dæmd í 28 ára fangelsi í janúar í fyrra, fyrir morðið á hinni bresku Meredith Kercher í Perugia árið 2007. Komist dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að staðfesta dóminn, eru líkur á að hörð barátta verði háð um framsal Knox frá Bandaríkjunum.

Knox og fyrrverandi kærasti hennar, hinn ítalski Raffaele Sollecito, voru upphaflega dæmd í 26 og 25 ára fangelsi fyrir morðið á Kercher, en voru sýknuð árið 2011. Knox snéri þá aftur til Bandaríkjanna frjáls kona, en í janúar var dæmt í málinu á ný og þá var það niðurstaða dómara að Knox og Sollecito hefðu myrt Kercher þegar kynlífsleikur fór úr böndunum.

Kercher fannst myrt í stúdentahúsnæði sem hún deildi með Knox í nóvember 2007. Hafði hún verið skorin á háls og lá hálfnakin í eigin blóði. Hún hafði verið stungin 47 sinnum.

Sollecito var dæmdur í 26 ára fangelsi og þá var vegabréf hans gert upptækt. Hann hefur staðfest að hann verði viðstaddur uppkvaðningu dóms hæstaréttar og sagði nýlega í viðtali að hann hefði ekki átt sér líf síðustu átta ár.

Knox, sem hefur verið uppnefnd Foxy Knoxy í erlendum fjölmiðlum, verður hins vegar ekki viðstödd og hefur sagt að til þess þyrfti að draga hana aftur til Ítalíu „sparkandi og öskrandi“. Í febrúar bárust fregnir af því að hún hefði trúlofast gömlum vini.

Gætu reynt að færa rök gegn framsali

Almenningsálitið í Bandaríkjunum virðist á bandi Knox, en þar í landi hafa menn m.a. viljað meina að málið gegn henni hafi verið meingallað og að mistök hafi verið gerð við rannsókn þess. Meðal annars að lögreglumenn hafi verið klæddir óhreinum hönskum þegar þeir meðhöndluðu sönnunargögn.

Fari svo að dómurinn verði staðfestur, gætu yfirvöld í Bandaríkjunum fær þau rök að Knox hafi verið fórnarlamb þess sem þar í landi er kallað „double jeopardy“, þ.e. að réttað hafi verið yfir henni tvisvar vegna sama glæps. Í framsalssamningi milli Bandaríkjanna og Ítalíu kemur hins vegar fram að samkvæmt lögum síðarnefnda ríkisins séu engin takmörk fyrir því hversu oft má draga fólk fyrir dómstóla í sama máli.

Bandarísk yfirvöld gætu jafnframt fært þau rök að vistun Knox í yfirfullu ítölsku fangelsi fæli í sér brot á mannréttindum hennar, og gætu boðist til þess að fangelsa hana heima fyrir. Þá myndi það draga úr líkunum á framsali ef Knox reyndist ólétt þegar ákvörðun yrði tekin í málinu.

Lögfræðiprófessorinn Alan Dershowitz sagði í samtali við AFP að hann teldi þó ólíklegt að Knox kæmist hjá því að verða framseld; dómstólar Ítalíu væru lögmætir og framsalssamningur í gildi milli ríkjanna.

Krefjast þess að Knox afpláni dóminn í ítölsku fangelsi

Bæði Knox og Sollecito hafa haldið fram sakleysi sínu í málinu en áfrýjunardómstólinn sem úrskurðaði um sekt þeirra í fyrra horfði m.a. til játningar Knox við yfirheyrslur, þar sem hún sagði að hún hefði verið í húsinu þegar morðið átti sér stað en ekki átt þátt að því. Hún dró játninguna seinna til baka.

Fjölskylda Kercher, sem hefur beðið eftir endanlegri niðurstöðu í málinu frá 2007, hefur sagt að verði fangelsisdómar Knox og Sollecito staðfestir, muni þau krefjast þess að Knox verði framseld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert