„Flugvélin er gereyðilögð“

Þessi mynd hefur birst víða um heim og er sögð …
Þessi mynd hefur birst víða um heim og er sögð vera af braki vélarinnar í hlíðum fjallanna. Skjáskot af Sky

Fátt kemst að á þýskum vefmiðlum annað en hrap Airbus A320-vélar þýska flugfélagsins Germanwings í Suður-Frakklandi. „Flugvélin er gereyðilögð,“ sagði í fyrirsögn vefsíðu vikublaðsins Die Zeit yfir loftmynd, sem sýnir brak vélarinnar dreift eins og hráviði. Á vefsíðum tímaritsins Der Spiegel og dagblaðsins Frankfurter Allgemeiner Zeitung er sjónum beint að hinum látnu og sagt að talið sé að 67 Þjóðverjar séu meðal hinna látnu.

„Sorg í Haltern – „alls staðar má finna fyrir áfallinu“,“ sagði í fyrirsögn á vefsíðu blaðsins Süddeutsche Zeitung. Þar er vísað til orða, sem  borgarstjóri Haltern am See, Bodo Klimpel, lét falla á blaðamannafundi. Sextán nemendur í menntaskóla í Haltern og tveir kennarar þeirra voru á leið heim með vélinni úr skólaferðalagi á Spáni.

Margir þýskir fjölmiðlar vitna í orð franska þingmannsins á Twitter-reikningi hans. „Flugvélin er gereyðilögð,“ skrifaði hann. „Hrikalegar myndir úr fjalllendinu. Ekkert er eftir nema brak og lík.“ Castaner er þingmaður Alpes-de-Haute-Provence og flaug með Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra Frakklands, yfir slysstaðinn.

Í þýskum fjölmiðlum er einnig talað um að það sé ráðgáta hvers vegna vélin hafi hrapað, en einnig greint frá því að svarti kassi vélarinnar sé fundinn. Einnig er vitnað í orð Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, um að slysið valdi „djúpri sorg“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert