„Opnaðu fjárans dyrnar!“

Flugstjórnarklefi.
Flugstjórnarklefi. AFP

Flugstjóri Germanwings-farþegaflugvélarinnar sem var grandað í frönsku Ölpunum öskraði að flugmanninum að „opna fjárans dyrnar“ þegar hann reyndi að komast aftur inn í flugstjórnarklefann.

Flugmaðurinn, hinn 27 ára gamli Andreas Lubitz, læsti klefanum á meðan flugstjórinn brá sér á klósettið. Þá lækkaði hann flug vélarinnar vísvitandi og brotlenti henni í kjölfarið, svo allir þeir 150 sem voru um borð létust.

Flugstjórinn reyndi í örvæntingu að komast aftur inn í flugstjórnarklefann á þeim átta mínútum sem það tók Lubitz að granda vélinni, samkvæmt því sem kemur fram á flugrita vélarinnar. 

Samkvæmt þýska blaðinu Bild í dag kemur fram að heyrst hafi í honum öskra: „Í guðanna bænum, opnaðu dyrnar!“ um leið og heyra mátti farþega öskra í bakgrunni.

Reyndi hann að brjóta hurðina upp með exi á meðan hann öskraði á Lubitz að „opna fjárans dyrnar“. Á meðan var Lubitz þögull og andardráttur hans eðlilegur.

Áður en flugstjórinn yfirgaf flugstjórnarklefann segir hann Lubitz að hann hafi ekki haft tíma til að fara á klósettið áður en þeir yfirgáfu frá Barcelona í átt að Düsseldorf. 

Þýsk­ir sak­sókn­ar­ar segja Lubitz hafa falið veik­indi sín fyrir flug­fé­lag­inu, en lækn­ar höfðu mælst til þess að hann færi í veik­inda­leyfi á þeim tíma sem slysið varð. Á föstu­dag fund­ust á heim­ili hans lækn­is­vott­orð sem búið var að rífa. Þá fannst á heimili hans fjöldi lyfja sem notuð eru til meðferðar á geðrænum veikindum.

Ekkert er talið benda til þess að Lubitz hafi átt við áfeng­is- eða fíkni­efna­vanda að stríða. Hann hafi þó verið und­ir miklu álagi og var mjög þung­lynd­ur sam­kvæmt per­sónu­leg­um bréf­um sem fund­ust á heim­ili hans. 

Lubitz leitaði tvisvar á sjúkra­hús ný­verið. Í fe­brú­ar leitaði hann álits lækn­is vegna sjúk­dóms­grein­ing­ar. Síðari heim­sókn­in var hinn 10. mars.

Andreas Lubitz.
Andreas Lubitz. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert