Sýknuð eftir átta ára þrautagöngu

Amanda Knox ræðir við blaðamenn fyrir utan heimili foreldra sinna …
Amanda Knox ræðir við blaðamenn fyrir utan heimili foreldra sinna í Seattle í Washington eftir að æðist dómstóll Ítalíu sýknaði hana af morðinu. AFP

Amanda Knox var dæmd í fangelsi ásamt kærasta sínum fyrir að hafa myrt sambýliskonu sína. Saksóknari lagði fram kenningar um djöfladýrkun og afbrigðilegar athafnir, sem voru bergmál frá rannsókn hans á raðmorðum Skrímslisins frá Flórens á liðinni öld og voru meira í ætt við skáldskap en veruleika. 

AmandaKnox hefur í tvígang verið sakfelld fyrir morðið áMeredithKercher. Nú hefur hún einnig verið sýknuð í tvígang. Fyrir viku komst æðsti dómstóll Ítalíu,CorteSupremadiCassazione, að þeirri niðurstöðu aðKnox hefði ekki myrt breska námsmanninn íPerugia árið 2007. Dómstóllinn skar einnig úr um það að þáverandi kærasti hennar,RaffaeleSollecito, væri saklaus af öllum ákærum á hendur sér.

Knox lýsti yfir því að ákvörðun dómstólsins væri henni „mikill léttir“ og hún væri þakklát. „Meredith var vinur minn, hún átti svo mikið skilið í lífinu,“ sagði hún við blaðamenn í Seattle, þar sem hún býr nú. „Ég er sú heppna.“

Úrskurðurinn kom mörgum á óvart. Meðal þeirra var Luciano Girgha, einn af lögmönnum Knox. „Úrskurðurinn lýsir hugrekki, hann hefur endurnýjað trú mína á kerfið,“ sagði hann.

Knox er nú 27 ára gömul. Hún var tvítug þegar morðið var framið. Kercher var 21 árs. Þær leigðu saman lítið hús ásamt tveimur Ítölum í Perugia þar sem þær voru í námi. Morðið á Kercher var sérlega óhugnanlegt. Hún var skorin á háls og stungin 47 sinnum. Hálfnakið lík hennar fannst í blóðpolli í herbergi hennar í húsinu.

„Kvendjöfull með ásjónu engils“

Ódæðisverkið vakti mikla athygli og fjölmiðlar veltu sér upp úr málinu. Athygli þeirra beindist ekki síst að Knox, bandaríska skiptinemanum, sem notaði gælunafnið „Foxy Knoxy“ á síðu sinni á félagsvefnum Myspace. Fjölmiðlar settu viðurnefnið í samhengi við kynlíf, en hún sagðist hafa fengið það fyrir útsjónarsemi sína á knattspyrnuvellinum. Hún var kölluð „kvendjöfull með ásjónu engils“ í gulu pressunni, en naut meiri samúðar í bandarískum fjölmiðlum og í The New York Times birtist leiðari undir yfirskriftinni „Sakleysingi í útlöndum“.

Knox var fyrst á vettvang eftir morðið. Hún sagði að hún hefði um nóttina verið hjá kærasta sínum sem hún hafði verið með í tvær vikur. Fjórum dögum síðar var hún handtekin og eftir strangar yfirheyrslur voru lagðar fram tvær yfirlýsingar, sem hún hafði undirritað. Þar viðurkenndi hún að hafa verið í húsinu þegar Kercher var myrt. Kærasti hennar, Sollecito, sem hún hafði aðeins verið með í tvær vikur, var einnig handtekinn ásamt 23 ára gömlum bareiganda og tónlistarmanni frá Kongó, Patrick Lumumba. Yfirvöld sögðu að þau þrjú hefðu myrt Kercher.

Flækingur og innbrotsþjófur

Nokkrum vikum síðar var Lumumba látinn laus vegna þess að hann hafði fjarvistarsönnun og annar maður handtekinn, einnig af afrískum uppruna. Rudy Guede er lýst sem flakkara. Hann fæddist á Fílabeinsströndinni og kom til Ítalíu fimm ára með föður sínum. Þegar hann var táningur hitti hann jafnaldra sinn af einni af ríkustu fjölskyldum Perugia á körfuboltavelli. Jafnaldrinn fékk föður sinn til að taka hann að sér og í nokkur ár lifði hann lífi hinna ríku. 2007 vísaði fjölskyldan honum hins vegar á dyr.

Sagt er að Guede hafi átt við sálræn vandamál að stríða. Áður en morðið var framið hafði Guede brotist þrisvar inn á tveimur mánuðum. Viku fyrir morðið var hann handtekinn og látinn laus aftur.

Guede hefur aldrei neitað að hafa verið í herbergi Kercher og kveðst hafa horft á þegar henni blæddi út. Hann segir að hún hafi boðið sér inn og hann hafi verið á baðinu þegar hann heyrði hana öskra.

Erfðaefni úr Guede fannst í saur í klósetti. Fingraför hans voru á tómu veski í rúmi hennar og erfðaefni hans fannst í leggöngum hennar, þó ekki sæði. Í samtali, sem Guede átti á samskiptavefnum Skype og lögregla fylgdist með, sagði hann að Amanda Knox hefði „ekkert komið nálægt þessu“. Það voru fyrstu ummælin, sem vitað er að hann hafi látið falla um málið.

Saga Guedes átti eftir að breytast. Hann var dæmdur í 30 ára fangelsi fyrir morðið 2008. 2009 bar hann vitni fyrir áfrýjunardómstól og sagði að hann hefði heyrt Knox rífast við Kercher um peninga kvöldið sem morðið var framið. „Hún skipulagði þetta allt saman fyrir kynlíf,“ sagði lögmaður Guedes og átti við Knox.

Knox var dæmd í 26 ára fangelsi og Sollecito í 25 ára fangelsi. Þeim var gefið að sök að hafa stungið og skorið Kercher á meðan Guede hélt henni fastri.Þremur vikum síðar var dómurinn yfir Guede styttur úr 30 árum í 26 auk þess sem fangelsisvistin var stytt um þriðjung vegna þess að hann samþykkt að réttarhöldunum yrði hraðað.

Áfrýjunardómstóll hnekkti dóminum yfir Knox og Sollecito í október 2011 og þau voru frjáls ferða sinna. Þá hafði Knox setið inni í fjögur ár.

Æðsti dómstóll Ítalíu komst að þeirri niðurstöðu 2013 að meinbugir hefðu verið á þeim úrskurði og fyrirskipaði að réttað yrði að nýju í málinu í Flórens. Þar var sakfellingin staðfest og dómurinn yfir Knox þyngdur í 28 og hálft ár. Þeirri niðurstöðu var síðan hnekkt 27. mars.

Engin lífsýni

Rannsókn málsins virðist hafa verið í ýmsu ábótavant. Játning Knox var ekki nothæf fyrir rétti. Hún var yfirheyrð daglega fyrstu dagana eftir morðið og kaus ekki að fara að ráði Ítalanna, sem bjuggu með henni, og hafa lögmann sér við hlið. Fjórða daginn stóðu yfirheyrslurnar yfir nótt og eftir það lagði lögreglan játningu hennar fram. Yfirheyrslan fór fram í herbergi þar sem hægt er að taka upp hljóð og mynd, en engar upptökur voru lagðar fram. Þess vegna mátti ekki nota játninguna fyrir rétti. Þess utan leit játningin ekki út eins og játning þegar hún var lesin í heild sinni.

Knox sagði síðar að lögregla hefði hótað henni 30 ára fangelsi þessa nótt. Fullyrt hefði verið að hún hefði verið inni í húsinu og hún hefði verið löðrunguð til að segja að hún hefði verið þar með Lumumba. (Lögregla neitaði að hafa beitt Knox harðræði.) Ástæðan fyrir því að lögð var áhersla á Lumumba var að hann var sá síðasti, sem Knox hafði sent smáskilaboð um kvöldið. Í þeim stóð „sjáumst síðar“ og taldi lögreglan að það þýddi að þau hefðu ætlað að hittast síðar um kvöldið til að myrða Kercher.

Knox sagði einnig að túlkur, sem henni var fenginn, hefði sagt að fólk í losti ætti erfitt með að muna hluti og því væri henni fyrir bestu að játa.

Þótt ekki hafi mátt nota játninguna segja sérfræðingar að slíkar játningar hafi ávallt áhrif á réttarhöld, jafnvel þótt þær hafi verið þvingaðar.

Ákæruvaldið gerði harða atlögu að mannorði Knox, sagði að hún væri „lostafull og hirðulaus“. Hún hefði neytt eiturlyfja og reglulega komið með ókunnuga menn á herbergið hjá sér til að stunda kynlíf og skilið hjálpartæki ástarlífsins og eggjandi nærföt eftir á glámbekk sambýlingum sínum til mikillar armæðu. Sögðu saksóknararnir að Kercher hefði verið myrt eftir að hún neitaði að taka þátt í kynlífsleik þar sem eiturlyf voru höfð um hönd með Knox, Sollecito og Guede.

Hins vegar var ekki mikið af beinhörðum sönnunum í málinu. Ekkert kom fram, sem benti til þess að Knox og Sollecito hefðu verið í herberginu þar sem morðið var framið. Þeir sem rannsökuðu vettvanginn reyndu að útskýra það með því að þau hefðu þurrkað fingraförin út, en með ótrúlegum hætti tekist að skilja fingraför Guedes eftir.

Lífrænt efni úr kartöflu

Lögreglan tók eldhúshníf úr skúffu til að rannsaka. Í sex daga var hnífurinn í skókassa heima hjá einum lögregluforingjanna. Nokkrum vikum síðar lýstu sérfræðingar lögreglunnar yfir því að erfðaefni úr fórnarlambinu hefði fundist á hnífnum. Óháðir sérfræðingar komust að þeirri niðustöðu síðar að lífræna efnið á hnífnum væri úr kartöflu.

Saksóknarinn í málinu, Giuliano Mignini, var með ýmsar kenningar – rán, afbrýðisemi kvenna eða úrkynjað kynlíf og sá margvísleg teikn á vettvangi. Miklar sögur spunnust um morðið. Ítalskir fjölmiðlar tengdu það við frímúrararegluna, sem á sér margra alda sögu í Perugia og hafði mikil völd. Hreyfing Musterisriddaranna var öflug í Perugia var á 15. öld. Páfagarður réðst gegn hreyfingunni og félagar í henni voru teknir af lífi. Aðrir fóru í felur og störfuðu á laun. Frímúrarareglan á rætur sínar að rekja til Musterisriddaranna og nú eru fleiri frímúrarar í Perugia miðað við höfðatölu en í nokkurri annarri borg á Ítalíu.

Mignini er frá Perugia og sagnabrunnur heimaslóðanna á greinilega ítök í honum. Á morðvettvangnum sá hann myrk tákn um að afbrigðilegur trúarsöfnuður hefði verið að verki. Hann sagðist hafa séð frá upphafi að sökudólgurinn væri nánast örugglega útlendingur og grunaði að á vettvangi hefði verið einhver einstaklingur, sem aldrei hefði náðst. Hann hefði stjórnað verknaðinum af illsku og slægð líkt og hann væri að stýra athöfn. Mignini var sannfærður um að það væri engin tilviljun að morðið hefði verið framið á allraheilagramessu, 1. nóvember.

Saksóknarinn og djöfladýrkendurnir

Mignini komst fyrst í sviðsljósið vegna framgöngu sinnar í morðmáli, sem var í heimsfréttum og urðu þættir úr því Robert Harris efniviður í eina af bókum hans um mannætuna Hannibal Lecter. Milli 1968 og 1985 voru framin sextán morð í Flórens. Í öllum tilfellum var um að ræða pör, nánar tiltekið elskendur í bílum. Lík kvennanna voru hræðilega útleikin og yfirleitt með svipuðum hætti. Mikil leit fór fram að morðingjanum, sem fékk viðurnefnið Skrímslið frá Flórens. Nokkrir voru dæmdir í málinu, en dómarnir þóttu ekki trúverðugir og það er mál manna að morðinginn hafi aldrei náðst.

Mignini kom að málinu á seinni stigum og gekk hann út frá þeirri kenningu að morðin hefðu verið framin til að nota mætti líkamshluta úr konunum í athafnir djöfladýrkenda. Hann og lögregluforinginn Michele Giuttari gáfu sér að skuggalegur hópur auðugra, valdamikilla og virtra einstaklinga hefði ráðið einstaklinga úr lægri stigum samfélagsins til þess að drepa pörin til þess að ná í kynfæri stúlkunanna, sem ætti að nota sem djöfullega „oblátu“ í svörtum messum þeirra.

Allt kapp var síðan lagt á að færa sönnur á þessa kenningu og urðu tilraunirnar til þess æ langsóttari. Vísbendingar um annað voru hunsaðar. Um leið var ráðist að þeim, sem gagnrýndu kenningarnar. Ítalski blaðamaðurinn Mario Spezi, sem fylgdist með málinu frá upphafi var settur í gæsluvarðhald og var gengið svo langt að segja að hann væri grunaður um morðin.

Líkt og í máli Amöndu Knox virtist lykilatriði í rannsókninni að ganga út frá því að ekki væri allt sem sýndist.

Fyrirbærið dietrologia

Í bók Douglas Prestons og Marios Spezis um morðin og rannsóknina á þeim, The Monster of Florence, lýsir Preston samtali sínu við ítalskan aðalsmann, Niccolo Capponi greifa, sem segir að til þess að átta sig á rannsókninni á Skrímslinu frá Flórens þurfi aðeins að skilja eitt orð: Dietrologia. Dietro þýðir fyrir aftan og logia fræði; fræði þess sem býr að baki, er dulið. „Dietrologia er sú hugmynd að það augljósa geti ekki verið sannleikurinn,“ segir aðalsmaðurinn. „Það er alltaf eitthvað falið að baki, dietro.“ Hann segir að dietrologia sé þjóðaríþrótt á Ítalíu. Allir vilji vera sérfræðingar og vita hvað sé að gerast í raun. Það sýni vald þeirra að þeir séu með á nótunum og tengist rannsókninni þannig að rannsakendurnir verði að finna eitthvað, sem sé að baki því sem virðist vera: „Það getur ekki ekki verið eitthvað. Hvers vegna? vegna þess að það er ekki mögulegt að það sem þú sjáir sé sannleikurinn. Ekkert er einfalt, ekkert er eins og það virðist.“

Þar við bætist að þegar menn eru einu sinni farnir af stað er ekki hægt að láta staðar numið, segir greifinn. Þar spilar stoltið inn í, óttinn við að missa andlitið.

Ósnertanlegur saksóknari

Mignini virðist hafa verið svo upptekinn af kenningum um djöfladýrkun og afbrigðilegar athafnir að hann var tilbúinn að laga þá glæpi, sem hann rannsakaði að kenningum sínum í stað þess að rekja fyrirliggjandi vísbendingar. Hann leitaði hiklaust til sjáanda og tók kenningar hans orðréttar upp. Þegar Mignini var kominn af stað gat fátt stöðvað hann. Á Ítalíu hefur saksóknari afar sérstaka stöðu. Þeir hafa stöðu dómara og hluti af dómskerfinu. Þeir eru ráðnir ævilangt og hafa algert sjálfdæmi.

Mignini var ákærður fyrir að misnota embætti sitt 2006 meðal annars með því að hlera og hefja ólöglega rannsókn á lögreglu og blaðamönnum, sem höfðu gagnrýnt rannsóknir hans. 2010 var hann sekur fundinn og dæmdur í 16 mánaða fangelsi, en hann áfrýjaði málinu og 2011 var dóminum hnekkt. Meðan á þessu stóð rak hann rannsóknina á morðinu á Meredith Kercher og hélt þegar upp var staðið embættinu.

Þegar mál Amöndu Knox var tekið fyrir í hæstarétti Ítalíu 25. mars sagði saksóknarinn í málinu, Mario Pinelli, að framsetning málsins á dómstiginu á undan hefði verið „gallalaus“. „Sú lýsing, sem dómararnir í Flórens settu fram er yfir gagnrýni hafin,“ sagði Pinelli. Dómurinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að ekki dygði til sakfellingar að fabúlera um djöfladýrkun og dulrænar athafnir án þess að leggja fram áþreifanlegar sannanir.

Raffaele Sollecito kemur til að halda blaðamannafund í Róm þremur …
Raffaele Sollecito kemur til að halda blaðamannafund í Róm þremur dögum eftir að hann var sýknaður af morðinu. AFP
Meredith Kercher.
Meredith Kercher.
Kráareigandinn Patrick Lumumba við hæstarétt í Róm í liðinni viku. …
Kráareigandinn Patrick Lumumba við hæstarétt í Róm í liðinni viku. Hann var handtekinn fyrir morðið en hafði fjarvistarsönnun. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert