Pútín: Leyfðu konunni að fá sér hund

Margir vildu fá mynd af sér með Pútín forseta yfir …
Margir vildu fá mynd af sér með Pútín forseta yfir útsendinguna í gær. AFP

Pútín Rússlandsforseti þurfti að svara margvíslegum spurningum í langri útsendingu í gær. Hann var m.a. spurður um stríðið í Úkraínu, viðskiptaþvinganir á Írana og sambandið við vesturlönd. Ein spurning stóð þó upp úr. Hún snérist um hund.

Árlega svarar Pútín fjölda spurninga almennings í beinni útsendingu. Eins og gefur að skilja eru málefnin margvísleg.

Ein kona hringdi og sagði að vinkonu sinni langaði í hund. Hins vegar vildi eiginmaður vinkonunnar, hermaðurinn Boris, ekki fá hund. Hvað var til ráða? Gæti forseti Rússlands skipað Boris að samþykkja hundinn?

Pútín byrjaði á því að stinga upp á því að Boris keypti einfaldlega loðfeld handa eiginkonunni í stað hunds. Hann hélt svo áfram og sagði að hann gæti ekki skipað manni að fá sér hund. Ekki einu sinni forseti Rússlands,  gæti gert það.

En Pútín fór fljótlega að skipta um gír: „Boris, gerðu það, leyfðu konunni þinni að kaupa hund. Það mun styrkja fjölskylduna ykkar,“ sagði Pútín.

Því næst tók hann við símtölum um stjórnmálasamband Rússa við Bandaríkin og fleiri vesturveldi.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert