Öld liðin frá fjöldamorðunum á Armenum

Armenar minnast þess í dag að hundrað ár eru liðin frá fjöldamorðunum á Armenum en erfiðlega hefur gengið að fá tyrknesk yfirvöld til þess að viðurkenna að framið hafi verið þjóðarmorð á Armenum. Allt að ein og hálf milljón Armena var drepin í aðgerðum Ottómana (Tyrkja).

Armenía er í suðurhluta Kákasus og á landamæri að Georgíu, Aserbaídsjan, Tyrklandi og Íran. Hún er minnst Kákasuslandanna, 29.800 km2 að flatarmáli, og jafnframt þéttbýlust, með rétt um 100 íbúa á hvern ferkílómetra. Armenía var eitt af lýðveldum Sovétríkjanna en hlaut sjálfstæði þegar þau liðuðust í sundur árið 1991.

 Árið 1915 hófust aðgerðir tyrkneskra stjórnvalda sem leiddu til dauða hundraða þúsunda Armena. Um var að ræða fjöldamorð, en líka flutninga á Armenum, sem flestir bjuggu kringum það svæði þar sem Armenía er nú, til svæðis þar sem Sýrland er nú og Írak. Fólkið var rekið fótgangandi þessa þúsund kílómetra vegalengd, með meðfylgjandi óhæfuverkum og mannvonsku: aftökum og pyntingum. Erfitt er að gera sér grein fyrir því hve margir dóu. Tyrknesk yfirvöld tala um þrjú hundruð þúsund manns, en aðrir nefna eina og hálfa eða jafnvel tvær milljónir fórnarlamba. Líklegasta ágiskunin ku vera að fallið hafi milli sex hundruð þúsund og ein og hálf milljón manna, segir á Vísindavefnum.

Í höfuðborg Armeníu, Yerevan, lögðu forseti landsins, Serzh Sarkisian, og eiginkona hans, Rita Sarkisian, í morgun blómsveig á minningarreit um fjöldamorðin.

Fjölmargir þjóðarleiðtogar, þar á meðal Vladimír Pútín, forseti Rússlands og François Hollande, forseti Frakklands, taka þátt í minningarathöfninni. Síðar í dag er þess vænst að hundruð þúsunda Armena muni taka þátt í minningarathöfnum í landinu. 

Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, sendi frá sér yfirlýsingu vegna minningarathafnarinnar og var hún ákaflega varlega orðuð. Talar hann um eitt skelfilegasta grimmdarverk síðustu aldar án þess að minnast einu orði á fjöldamorð.

„Þessir atburðir hafa verið nefndir fyrsta þjóðarmorð 20. aldarinnar en þó er sjaldan minnst á þá og ríki heimsins viðurkenna yfirleitt ekki að um þjóðarmorð hafi verið að ræða. Atburðirnir voru það þó áreiðanlega samkvæmt þeirri skilgreiningu sem venjulega er höfð, að þjóðarmorð séu þau fjöldamorð sem framin eru með það fyrir augum að eyða þjóð, ættbálki eða hópi sem skilgreindur er með tilliti til trúarbragða eða kynþáttar.

 Tyrknesk yfirvöld réðust einmitt á Armena vegna fordóma; hugsunin var „þú skalt deyja því að þú ert Armeni!“ Einnig kann það að hafa haft áhrif að Tyrkir óttuðust að kristnir Armenar mundu styðja kristna Rússa í stríðinu sem þeir síðarnefndu háðu við íslamska Tyrki (í fyrri heimsstyrjöldinni börðust Tyrkir, Þjóðverjar, Austurríkismenn-Ungverjar og Búlgarar við Rússa, Frakka, Breta, Ítala og seinna Bandaríkjamenn, svo að stærstu þjóðirnar séu nefndar),“ segir á Vísindavefnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert