Vissu um hættuna en aðhöfðust ekki

Rannsókn á örlögum flugs MH17 stendur enn yfir en lokaskýrslu …
Rannsókn á örlögum flugs MH17 stendur enn yfir en lokaskýrslu hollenskra aðila er að vænta í október. AFP

Stjórnvöld í Þýskalandi voru upplýst um að hættulegt væri að fljúga yfir austurhluta Úkraínu skömmu áður en farþegaþota var skotin þar niður í júlí sl. Þrátt fyrir þetta hafði flugfélaginu Lufthansa ekki verið gert viðvart, en þrjár vélar félagsins flugu yfir sama svæði daginn sem þotunni var grandað.

298 létu lífið þegar vél Malaysia Airlines, flug MH17 frá Amsterdam til Kuala Lumpur, fórst. Þá voru aðeins þrír dagar liðnir síðan úkraínsk herflugvél hafði mætt sömu örlögum á sama svæði.

Samkvæmt þýskum miðlum má lesa það úr gögnum þýska utanríkisráðuneytisins að eyðilegging Anatov herflugvélarinnar hafi þótt þýðingarmikill atburður vegna flughæðar vélarinnar, sem var 6.000 metrar.

Farþegaþotan var í 10.000 metra hæð þegar hún var skotin niður.

Að því er fram kemur í fréttum þýsku miðlanna höfðu þýsk leyniþjónustuyfirvöld ítekað varað við því að flugöryggi á svæðinu væri ógnað, en heimildarmaður innan Lufthansa segir að engar viðvaranir hafa borist fyrirtækinu.

Þrjár vélar á vegum Lufthansa flugu yfir svæðið sama dag og vél Malaysia Airlines var grandað, ein aðeins tuttugu mínútum áður. Svo virðist sem tilviljun hafi ráðið því að engin þeirra varð fyrir árás.

BBC sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert