„Ég verð grafinn lifandi“

AFP

„Við heyrðum þetta skelfilega hljóð, það var eins og járnbraut en kom af miklu dýpi... og svo að lokum kom kyrrðin, þessi mikla kyrrð, og ég vissi að ég væri á lífi,“ segir ljósmyndari AFP, Roberto Schmidt, sem lifði af snjóflóðið á Everest. 

Schmidt, sem er yfir ljósmyndadeild AFP í Suður-Asíu og yfirmaður ritstjórnar AFP í Katmandú, Ammu Kannampilly, voru nýkomin í grunnbúðirnar á laugardagsmorgninum þegar snjóflóðið féll í kjölfar jarðskjálfta sem var 7,8 stig. Vitað er að 4.310 létust í jarðskjálftanum og snjóflóðunum.

Heyrðum þetta ramakvein

Þau Schmidt og Kannampilly eru komin  til bæjarins Lukla en þaðan halda flestir þeirra sem klífa Everest.

„Við vorum nýkomnir eftir níu daga fjallgöngu. Þetta er erfið ganga og erfitt að lýsa áhrifunum á líkama þinn en þetta er stórkostlegur staður,“ segir Schmidt.

Hann segist hafa tekið töluvert af myndum en síðan hafi þeir farið að leita að tjaldi sínu. „Við höfðum ekki verið þarna í meira en tíu mínútur þegar við fundum þennan gný, þetta ramakvein. Ammu sagði við mig: Hvað er þetta? Ég svaraði að jörðin væri að hreyfast - þetta er snjóflóð.“

Schmidt ólst upp í Kólumbíu og segist ýmsu vanur þaðan þegar kemur að jarðhræringum en engu sem þessu.

„Við fórum út úr tjaldinu og þá heyrðum við þetta skelfilega hljóð,“ segir hann og segir að krafturinn hafi  verið ólýsanlegur. Hann segir að engar myndir geti fangað það sem þeir upplifðu. „Ég greip myndavélina og smellti  af, ég náði þremur skotum en síðan var það yfir okkur. Ég stökk inn og fór undir borðið,“ segir hann.

Hann segir mikinn vind fylgja flóðinu og síðan hafi aldan brostið og feykt þeim með. „Þú veist ekki hvort þú snýrð upp eða niður eða hvað. Þú kútveltist bara.“

Schmidt segist að lokum hafa stöðvast og legið á bakinu þar sem hann heyrði grjót falla allt í kringum sig. „Ég verð grafinn lifandi,“ segist hann hafa hugsað. En félagar hans gáfust ekki upp og hreinsuðu grjótið af honum og að lokum hafi algjör þögn ríkt. Hann hafi verið með meðvitund og reynt að ná andanum. Þá hafi sjerpi komið og aðstoðað hann við að komast á fætur. 

Þau  Kannampilly hafi verið afar heppin og sennilega var það klettur sem tjald þeirra stóð við sem bjargaði því að þau sópuðust ekki með flóðinu. 

Næsta hálftímann hafi mátt heyra fjölda snjóflóða falla allt í kringum þau en þau hafi ekki séð neitt enda mjög skýjað. Hljóðin hafi hins vegar verið skelfileg.

Farðu niður!

Ammu Kannampilly segir að það hafi verið skelfilegt þegar hljóðið frá snjóflóðinu heyrðist. „Það var þetta hljóð og Roberto fór út úr tjaldinu til þess að taka myndir,“ segir Kannampilly.

„Ég stökk inn til þess að ná í myndavélina mína og á sama sekúndubroti öskrar hann: farðu niður,  og svo kom hann hlaupandi inn í tjaldið og ég stökk undir borðið og lokaði augunum. Þegar hristingurinn hætti og ég opnaði augun aftur var allt hvítt, það var eins og okkur hefði verið hent í flórsykurspakka. Ég reyndi að hreinsa burt snjóinn og þá áttaði ég mig á því að hendurnar á mér voru alblóðugar, gleraugun mín horfin og ég æpti nafn Robertos og heyrði hann stynja á spænsku: Guð minn góður,“ segir Kannampilly.

Hún segist hafa heyrt í Pasang, sjerpanum sem kom félaga hennar til bjargar, hann kallaði nafn hennar og hún segist hafa öskrað eins hátt og hún gat. Hann kom hlaupandi og gróf þau út úr tjaldinu. 

„Ég man þegar ég komst út og allt var hvítt og algjörlega hljótt. Ég man að ég hugsaði: hvernig getur allt verið svona hljótt? Hvar eru allir? Ég sá einn af burðarmönnunum okkar en hann var sárkvalinn og það var búið að breiða teppi yfir hann.“

Verið er að flytja fjallgöngumenn með þyrlum niður af fjallinu en að minnsta kosti nítján fórust í snjóflóðinu sem sópaði hundruð tjalda á brott í grunnbúðum fjallsins. Rúmlega 60 fjallgöngumenn slösuðust í flóðinu. 

Fjölmargir slösuðst í snjóflóðinu sem féll í kjölfar jarðskjálftans
Fjölmargir slösuðst í snjóflóðinu sem féll í kjölfar jarðskjálftans AFP
Frá grunnbúðum Everest
Frá grunnbúðum Everest AFP
AFP
AFP
AFP
Myndir frá Roberto Schmidt
Myndir frá Roberto Schmidt AFP
Mynd Roberto Schmidt af flóðinu verður væntanlega ein af myndum ...
Mynd Roberto Schmidt af flóðinu verður væntanlega ein af myndum ársins AFP
AFP
AFP
AFP
Roberto Schmidt á leið að Everest
Roberto Schmidt á leið að Everest AFP
AFP
mbl.is
Einstakt verslunarhúsnæði í miðbænum
Um það vil 70 fermetra verslunarhúsnæði á besta stað í miðbæ Reykjavíkur, neðst ...
ÚTI HRINGSTIGAR
Vantar stiga af svölunum ofan í garðinn ? Stærð 120, 140 og 160 cm og eftir mál...
Frá Kattholti
Munið að með því að gerast félagar í Kattavinafélagi Íslands styðið þið við star...
Til sölu Færeyingur Haffrúin 6032
Gengur í Strandveiðina, Ný vél, vökvagír, skrúfa og mælaborð, nýtt rafkerfi,raf...