Kim Jong Un lét eitra fyrir frænku sinni

Kim Jong Un.
Kim Jong Un. AFP

Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong Un, lét eitra fyrir frænku sinni. Þetta segir fyrrverandi starfsmaður ríkisstjórnarinnar sem strauk frá heimalandinu. Maðurinn, sem er einn sá hæst setti í stjórn Kim sem flúið hefur land, segir þetta í viðtali við hann sem birt er á vef CNN.

Maðurinn kallar sig Park, sem er dulnefni. Hann þorir ekki fyrir sitt litla líf að koma fram undir nafni þegar hann segir frá þeim hrikalegum hlutum sem stjórn Norður-Kóreu hefur staðið á bak við. Park var starfsmaður í stjórn Kim í áratugi.

Park ásakar stjórn Norður-Kóreu um margt. Eitt af því er að leiðtoginn, Kim Jong Un, hafi látið eitra fyrir frænku sinni. Þetta segir hann að hafi gerst 5. og 6. maí á síðasta ári. „Kim Jong Un fyrirskipaði morð á frænku sinni, Kim Kyong Hui. Aðeins lífvarðarsveit hans vissi þetta, núna vita háttsettir starfsmenn stjórnarinnar að það var eitrað fyrir henni.“

Park segir að Kim hafi viljað þagga niður í þessari frænku sinni eftir að hún hafði mánuðum saman kvartað undan því að eiginmaður hennar hafi verið drepinn í desember árið 2013. Sá hét Jang Song Thaek og var næstráðandi í landinu.

CNN heimsótti Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu, nýverið og bar undir fulltrúa hennar ásakanir um morð á háttsettum mönnum. Þeim ásökunum var harðneitað. Hins vegar er því ekki neitað að þeir sem reyni að hrifsa völdin af Kim Jong Un séu teknir af lífi. 

Jang Song Thaek og eiginkona hans tóku að sér að segja hinum unga leiðtoga, Kim Jong Un, til er hann tók við völdum er faðir hans, Kim Jong Il, lést. Hins vegar voru Jang og Kim alls ekki sammála um leiðir, m.a. hvað peninga varðar.

 Park segir að þegar Kim Jong Un hafði verið við stjórn í um 18 mánuði hafi hann viljað byggja upp skíðasvæði og vatnsrennibrautargarð, líkt og hann hafði kynnst í námi sínu í Sviss. Jang vildi að efnahagur landsins yrði settur í forgang. Þar með hófst ósætti þeirra.

Í kjölfarið var Jang handtekinn, dreginn fyrir dóm og tekinn af lífi. Allt gerðist þetta á innan við viku. Jang var ekki tekinn af lífi opinberlega en það sama verður ekki sagt um 30 stuðningsmenn hans og eiginkonunnar, frænku Kims.

Kim Jong Un ásakaði Jang um að hafa ætlað að steypa sér af stóli. Park segir að slíkt hafi ekki verið raunin.

CNN tekur fram í frétt sinni að ekki sé hægt að staðfesta ýmislegt í frásögn Parks, eingöngu út af því að Norður-Kórea er svo lokað land.

Viðtal CNN í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert