Eru stúlkurnar á flótta?

Kadiza Sultana, Amira Abase og Shamima Begum
Kadiza Sultana, Amira Abase og Shamima Begum EPA

Utanríkisráðuneyti Bretlands skoðar nú sögusagnir þess efnis að þrjár breskar stúlkur, sem flúðu heimili sín til þess að ganga í lið með Ríki íslams, séu nú á flótta. Talið er að þær hafi flúið samtökin í borginni Mosul í Írak.

Íraskur bloggari sagði frá því í síðustu viku að liðsmenn samtakanna leituðu nú  að þremur breskum stúlkum sem eru giftar mönnum sem berjast fyrir Ríki íslams. Grunur leikur á að þetta séu sömu stúlkur og flúðu heimili sín í Bretlandi fyrr á árinu. 

Stúlkurnar heita Kadiza Sultana, Amira Abase og Shamima Begum. Þær náðust á upptöku eftirlitsmyndavélar í Tyrklandi 18. febrúar. Talið er að þeim hafi verið smyglað yfir landamærin til Sýrlands og hefðu komið sér fyrir í Raqqa.

Stúlkurnar hurfu eftir að þær sögðu fjölskyldum sínum að þær ætluðu út yfir daginn. Þær eru grunaðar um að hafa stolið skartgripum frá fjölskyldumeðlimum sínum til þess að greiða fyrir ferðalagið. 

Talsmaður utanríkisráðuneytisins sagði í samtali við Sky News að ráðuneytið vissi af málinu sem væri nú í skoðun.

Bloggarinn sem sagði frá leitinni að stúlkunum býr í Mosul og kallar sig Mosul Eye. Hann eða hún segist vera „sjálfstæður sagnfræðingur“. Bloggarinn segir frá lífi sínu í Mosul en borgin hefur verið yfirráðasvæði Ríki íslams síðan á síðasta ári. Aftökum, svipuhöggum, húsleitum og loftárásum hefur verið lýst á blogginu. 

Stúlkurnar sem hurfu frá heimilum sínum eru fimmtán og sextán ára gamlar. Þær voru nemendur við Bethnal Green Academy í Lundúnum. Mánuði eftir að þær hurfu reyndu fjórar aðrar stúlkur úr sama skóla að yfirgefa Bretland án árangurs en yfirvöld fengu ábendingu um að stúlkurnar væru á leið til Sýrlands til þess að giftast vígamönnum Ríkis íslams. 

Talið er að um 600 Bretar hafi farið til Sýrlands og Íraks til þess að berjast með samtökunum. 

Fyrri fréttir mbl.is:

Afhöfðanir og ruslfæði

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert