Tákn um Sovétríkin bönnuð

AFP

Forseti Úkraínu, Petró Porosjenkó, staðfesti í dag lög sem banna tákn í landinu sem tengjast Sovétríkjunum og þeim tíma þegar kommúnistar réðu ríkjum þar. Lagasetningunni hefur verið harðlega mótmælt af stjórnvöldum í Rússlandi á þeim forsendum að henni sé beint gegn Rússum. Lögin hafa einnig verið gagnrýnd harðlega af aðskilnaðarsinnum í austurhluta landsins sem hlynntir eru Rússum. Úkraínska þingið samþykkti lögin í síðasta mánuði.

Fram kemur í frétt AFP að lögin banni merki tengd Sovétríkjunum, fordæmi stjórn kommúnista, opni skjalasöfn sovésku leyniþjónustunnar í landinu og viðurkenni opinberlega hlutverk þjóðernissinnaðra hópa sem börðust fyrir sjálfstæði Úkraínu um miðja síðustu öld. Samkvæmt lögunum eru til að mynda sovéskir fánar bannaðir og styttur af Vladimír Lenín, helsta stofnanda Sovétríkjanna, verða brotnar niður. Þá verða torg í bæjum og borgum endurskírð. Þá banna lögin einnig nasistaáróður. Viðurlög við brotum gegn lögunum eru 5-10 ára fangelsi.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert