Óvíst að kjarnorkuviðræðum ljúki í bráð

AFP

Einn af samningamönnum íranskra stjórnvalda í kjarnorkudeilunni segir óvíst hvort það takist að ljúka viðræðum Írans og stórveldanna áður en fresturinn rennur út, þann 30. júní næstkomandi.

Abbas Araghchi, varautanríkisráðherra Írans, sagði við fjölmiðla í dag að nokkuð væri í að viðræðunum lyki. Þeim yrði haldið áfram í allan júnímánuð og sennilega eitthvað lengur, að því er fram kemur í frétt AFP.

Ný lota í samningaviðræðunum hófst í Vín í gær. Eins og kunnugt er skrifuðu deiluaðilar undir rammasamkomulag í apríl sem er hugsað sem ákveðinn grunnur að formlegu samkomulagi. Markmið stórveldanna er meðal annars að tryggja að Íranar geti ekki komið sér upp kjarnorkuvopnum.

Sam­komu­lagið geng­ur út á að kjarn­orku­áætl­un Írana verði sett tak­mörk en á móti verði refsiaðgerðum gegn þeim aflétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert