„Rautt spjald“ jafngildi enda ESB

Philip Hammond, utanríkisráðherra Breta.
Philip Hammond, utanríkisráðherra Breta. AFP

Philip Hammond, utanríkisráðherra Bretlands, hefur sagt að hugmyndir hóps þingmanna Íhaldsflokksins, sem eru mótfallnir aðild að Evrópusambandinu, um einhliða neitunarvald Breta hvað varðar innleiðingu löggjafar sambandsins, séu óframkvæmanlegar.

Liz Kendall, sem sækist eftir því að verða leiðtogi Verkamannaflokksins, hefur sakað David Cameron forsætisráðherra um að sýna miður góða leiðtogahæfileika í umræðunni um stöðu Breta gagnvart ESB.

Fyrrnefndur hópur þingmanna Íhaldsflokksins hefur sagt að hann muni berjast fyrir úrsögn úr sambandinu, verði það skilyrði ekki uppfyllt að breska þingið fái fullt neitunarvald þegar kemur að innleiðingu Evróuplöggjafarinnar.

Skilyrðið þýðir m.a. að endurskoða þyrfti löggjöfina sem gerði Bretum kleift að ganga í Efnahagsbandalag Evrópu árið 1973.

Hammond sagði ómögulegt að verða við kröfu þingmannanna, sem telja yfir 50 alls. Hann sagði í viðtali við Andrew Marr á BBC1 að rautt spjald gagnvart Evróuplöggjöfinni myndi jafngilda endalokum Evrópusambandsins.

Hammond sagði að það menn vildu koma á væri kerfi þar sem hópur þjóðþinga gæti beitt „rauðu spjaldi“.

Inngrip Hammond þykir benda til þess að stjórnvöld séu tilbúin til að stíga í lappirnar gagnvart harðlínumönnum innan Íhaldsflokksins.

Nánar má lesa um málið hjá Guardian.

mbl.is