Myndband af Lambert vekur reiði

Lambert sést í myndbnadinu með opin augun.
Lambert sést í myndbnadinu með opin augun. Skjáskot af Youtube

Hópur fólks sem berst gegn því að slökkt verði á öndunarvél lamaðs manns hafa vakið umtal í Frakklandi í dag eftir að þau birtu myndband sem sýnir manninn á sjúkrahúsi.

Að sögn hópsins sýnir Vincent Lambert viðbrögð við fjölskyldumeðlimum og mótmæla þau því að Lambert sé heiladauður. BBC segir frá þessu. 

Eins og fram hefur komið staðfesti Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu í síðustu viku niður­stöðu dóm­stóls í Frakklandi þess efn­is að gefið verði leyfi fyr­ir því að slökkva á búnaði sem held­ur lífi í Lambert. Hann hefur verið í dái í sjö ár eft­ir að hafa lent í mótor­hjóla­slysi. Fjöl­skylda hans er klof­in í af­stöðu sinni hvort það eigi að halda hon­um á lífi.

Læknar hafa fordæmt myndbandið og segja að það breyti ekki neinu, slökkva þurfi á öndunarvélinni.

Eig­in­kona Lambert og hluti af systkin­um eru sam­mála lækn­um sem hafa mælt með því að mat­ar- og vökv­a­gjöf­inni verði hætt þar sem eng­in von er á að Lambert nái bata.

En for­eldr­ar hans, sem eru kaþólsk og afar heit­trúuð, og tvö systkini hans, segja að lífi hans sé ekki lokið og hann þurfi ein­fald­lega betri umönn­un. 

Myndbandið sem sýnir Lambert var birt á Youtube og kaþólskri heimasíðu. Á því má sjá Lambert hreyfa augu og munn þegar að móðir hans talar við hann í gegnum farsíma og segist elska hann. Myndbandið var tekið upp nokkrum klukkustundum eftir að ákvörðun Mannréttindadómstólsins var tilkynnt. 

Sá sem tók upp myndbandnið, Emmanuel Guepin, er meðlimur í hópi þeirra sem vilja halda Lambert á lífi. Hann segir að myndbandið sýni „kraftmikil“ samskipti milli Lambert og bróður hans. Hann segir jafnframt að myndbandið sýni að „ákvarðanir teknar af dómstólum“ passi ekki við rétt ástand Lambert. 

Fyrrum læknir Lambert, Eric Kariger, fordæmdi myndbandið og sagði það vanvirðingu við sjúklinginn, eiginkonu hans og aðra fjölskyldumeðlimi. Hann sagði í útvarpsviðtali að myndbandið væri tilraun til þess að hafa áhrif á fólk sem skilur ekki ástand sjúklingsins til fulls. 

Þó það líti út fyrir að Lambert hafi brugðist við umhverfi sínu, var það einfaldlega ekki þannig. Kariger lagði áherslu á að engin von sé að Lambert nái bata. 

Bernard Devalois, yfirmaður líknardeildar nálægt París kallaði myndbandið „viðbjóðslegt“ og sagði að það sýndi ekkert annað en það sem læknar hafa þegar séð. Devalois sagði í sjónvarpsviðtali að Lambert hafi ekki verið að bregðast sérstaklega við að sjá eða heyra í fjölskyldumeðlimum. „Þú fengir sama myndband ef þú hefðir lesið fyrir hann símaskránna,“ sagði hann.

Móðir Lambert og stuðningsmenn hennar hafa heitið því að berjast áfram þrátt fyrir að ekki sé hægt að áfrýja dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. 

Hér að neðan má sjá umfjöllun fransks fjölmiðils um myndbandið og búta úr því. 

Fyrri frétt mbl.is:

Lambert fær að deyja

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert