Donald Trump tilkynnir framboð

Donald Trump tilkynnti framboð sitt í dag.
Donald Trump tilkynnti framboð sitt í dag. AFP

Bandaríski auðkýfingurinn Donald Trump hefur tilkynnt um forsetaframboð sitt, en hann sækist eftir tilnefningu frá Repúblikanaflokknum. Hann hefur gegnum tíðina sagst hafa áhuga á embættinu, en í dag sagði hann að hann væri að bjóða sig fram í alvöru.

Trump er 69 ára gamall milljarðamæringur sem hefur meðal annars hagnast gífurlega á fasteignaviðskiptum. Þá hefur hann stundað hótelrekstur og nýtt Trump nafnið t.d. við raunveruleikaþáttagerð. 

Frá hátíðarfundi Repúblikanaflokksins í Iowa í maí.
Frá hátíðarfundi Repúblikanaflokksins í Iowa í maí. AFP

Á fundi í Trump turninum í New York sagði hann að Bandaríkin þyrftu einhvern sem gæti tekið Bandaríkin og „gert þau frábær á ný.“ Sagði hann á fundinum að hann yrði besti forseti fyrir vinnumarkaðinn sem guð hefði skapað, en hann ætlar að endurreisa efnahaginn upp í fyrri tign.

Í síðustu kosningum höfnuðu kjósendur frambjóðanda Repúblikana, Mitt Romney, sem var fjárfestir. Telja margir að ólíklegt sé að flokkurinn velji núna fasteignakóng til embættisins, en það er þó ekki hægt að afskrifa Trump, sem hefur t.d. með aðkomu sinni að raunveruleikaþáttum búið til þekkta persónu og gæti hann átt greiðari leið að fjölmiðlum vegna þess.

Fyrir kosningarnar 2000 og 2012 ýtti Trump undir að hann væri að bjóða sig fram, en lét ekki verða af því. Núna hefur hann og stuðningsmenn hans ítrekað sagt að í þetta skiptið ætli hann raunverulega að bjóða sig fram. Ætlar hann meðal annars að senda frá sér yfirlýsingu um fjárhagsstöðu sína. Þá hafa innanbúðarmenn sagt að Trump sé tilbúinn að eyða eignum sínum í baráttuna og að hann hafi þegar ráðið starfsmenn vegna framboðsins. Þannig segir Christopher Ruddy, vinur Trump, að hann gæti auðveldlega sett 100 milljón dali í framboðið án þess að það kæmi illa niður á fjárhag hans.

Donald Trump ásamt konu sinni Melania Trump. Hann hefur lengi …
Donald Trump ásamt konu sinni Melania Trump. Hann hefur lengi verið þekktur fyrir að láta á berast, en hér er hann á boxbardaga í Las Vegast í síðasta mánuði. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina