Geta ekki lagfært vegi vegna rigninga

Frá Nepal.
Frá Nepal. AFP

Erfið þriggja daga ferð á asna til næsta markaðar til að verða sér út um nauðsynjar. Þetta var veruleiki íbúa í þorpinu Sirdibas í Nepal. Í dag, eftir skjálftann sem reið yfir 25. apríl sl., þurfa íbúar aftur á móti að reiða sig á þyrluferðir að mestu þar sem samgöngur til og frá þorpinu eru erfiðar.

Þetta er aðeins eitt af mörgum samfélögum í landinu sem glíma við erfiðleika af þessu tagi eftir náttúruhamfarirnar.

Flest húsin í þorpinu sem er vestur af höfuðborginni Katmandú skemmdust í skjálftanum. Vegir fóru víða í sundur en ekki verður hægt að lagfæra þá næstu mánuði vegna monsúntímans sem nálgast. „Við höfum ekki aðgang að markaði, við getum ekki keypt neitt og við þurfum hrísgrjón og olíu til að elda,“ segir hin sextuga Lani Gurung, íbúi í þorpinu.

Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) áætla að 2,8 milljón manns þurfi enn á aðstoð að halda eftir skjálftann og fleiri en 800 þeirra séu á svæðum sem erfitt er að komast til. Óttast er að vandræði vegna samgangna muni aukast enn fremur næstu daga.

SÞ hafa ráðið mörg þúsund manns til starfa sem burðarfólk, íbúa Nepal sem eru atvinnulausir eftir að ferðamannaiðnaðurinn hrundi vegna hamfaranna og mun fólkið vinna að því að koma hjálpargögnum til þeirra sem þurfa á að halda.

Um tíu kílómetrar af veginum frá Sirdibas er ónýtur samkvæmt upplýsingum frá 37 hermönnum sem starfa á svæðinu. Íbúar reyndu að nota eldri leið út úr þorpinu en komust að því að það var of hættulegt vegna hruns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert