Vilja ríkissjóð fyrir evruríkin

Jean-Claude Juncker, forseti framkvædastjórnar Evrópusambandsins.
Jean-Claude Juncker, forseti framkvædastjórnar Evrópusambandsins. AFP

Evruríkin þurfa að framselja meira vald til stofnana Evrópusambandsins. Þar með talið til sérstaks ríkissjóðs fyrir evruríkin sem settur verði á laggirnar á næstu tíu árum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um áframhaldandi samrunaþróun á evrusvæðinu sem birt var í dag.

„Ekki er nóg að stýra öðru stærsta hagkerfi heimsins með samvinnu á grundvelli sameiginlegra reglna,“ segir í skýrslunni sem samin var af forystumönnum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ráðherraráðs sambandsins, fjármálaráðherra evrusvæðisins, Evrópuþingsins og Evrópska seðlabankans. Aðalhöfundur skýrslunnar er Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Þar segir ennfremur samkvæmt fréttavefnum Euobserver.com að hverfa þurfi frá núverandi fyrirkomulagi þar sem stefnumótnandi ákvarðanir séu teknar af ríkisstjórnum ríkja Evrópusambandsins. Þess í stað þurfi ríkin að framselja meira fullveldi til sameiginlegra stofnana sambandsins. Þær stofnanir séu í flestum tilfellum þegar fyrir hendi.

„Þetta þýddi í framkvæmd að ríki Evrópusambandsins yrðu í auknum mæli að samþykkja sameiginlegar ákvarðanatökur varðandi ríkisfjármál þeirra og efnahagsstefnur,“ segir í skýrslunni sem ber heitið „Completing Europe's Economic and Monetary Union“ sem þýða mætti sem „Efnahags- og myntbandalag Evrópusambandsins klárað“.

mbl.is

Bloggað um fréttina