Ebóla skýtur aftur upp kollinum

Heilbrigðisstarfsmaður tekur á móti tveimur börnum með ebólu.
Heilbrigðisstarfsmaður tekur á móti tveimur börnum með ebólu. AFP

Höfuðborgin Freetown í Síerra Leóne er enn orðinn vettvangur ebólasmits en staðfest hefur verið að þrír einstaklingar, búsettir í fátækari hverfum borgarinnar, hafi greinst með sjúkdóminn.

Um 1,2 milljónir manna býr í höfuðborginni Freetown og létust þar hátt í 4.000 manns þegar ebólafaraldurinn gekk þar yfir nýverið. Hófst hann fyrst í Gíneu og dreifðist þaðan fljótt yfir til Líberíu og Síerra Leóne.

Viðbragðsteymi yfirvalda í Síerra Leóne vegna ebólasýkinga staðfestir við fréttaveitu AFP að þrjú ný tilfelli hafi greinst í Freetown. Komu þau öll upp í fátækari hverfum borgarinnar sem staðsett eru í austurhluta hennar. Fram til þessa hafði ebóla ekki greinst í borginni í þrjár vikur.

Er nú óttast að nýr faraldur skjóti aftur upp kollinum þótt ekki sé búist við því að hann verði jafn alvarlegur og sá sem á undan kom. Það svæði sem ebólan greindist á nú er þekkt fyrir lítið hreinlæti og eru malaríu og kóleru sýkingar þar algengar.

Í maí síðastliðnum var því lýst yfir að Líbería væri laus við ebólu. Öllu verr gengur hins vegar innan landamæra Síerra Leóne og Gíneu. 

Ebóla er ein af hættu­leg­ustu veir­um sem til eru og smit­ast hún aðeins með beinni snert­ingu lík­ams­vökva. Eru helstu ein­kenni ebólu hiti og upp­köst. Algeng smitleið hefur verið í gegnum jarðarfarir þar sem viðstaddir komust í snertingu við lík.

Hefur nú verið tekið á þessu og geta þeir sem skipuleggja óöruggar útfarir þurft að sitja í fangelsi í tvö ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert