Grískir bankar lokaðir alla vikuna

AFP

Ríkisstjórn Grikklands hefur staðfest að bankar þar í landi verði lokaðir alla vikuna, sem liður í aðgerðum til þess að koma í veg fyrir endanlegt hrun í gríska efnahagskerfinu. Ákvörðunin kemur í kjölfar þess að bankaráð Evrópska seðlabankans tilkynnti í gær að neyðarlausafjáraðstoð, sem grísku bankarnir hafa reitt sig á til að halda sér á floti, yrði haldið óbreyttri en ekki aukin.

Í úrskurði ríkisstjórnarinnar kemur fram að „afar brýnt“ sé að vernda fjármálakerfið vegna skorts á lausafé.  Al­ex­is Tsipras, for­sæt­is­ráðherra Grikk­lands, hafði tilkynnt í gærkvöldi að gjald­eyr­is­höft­um yrði komið á í land­inu, en í úrskurðinum kemur fram að úttekt reiðufjár verði takmörkuð við 60 evrur eða um 8.800 krónur á dag á þessu tímabili.

Nú­ver­andi björg­un­ar­áætl­un Grikkja renn­ur út á þriðju­dag­inn, en þá þurfa þeir að standa skil á 1,5 millj­arða evra af­borg­un af láni Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins. Slitnað hef­ur upp úr samn­ingaviðræðum grískra stjórn­valda við lán­ar­drottn­ana eft­ir út­spil Tsipras, sem ákvað að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðhaldstil­lög­ur sem lán­ar­drottn­ar lands­ins setja sem skil­yrði fyr­ir frek­ari neyðarlán­um. Í kjölfarið fóru að myndast biðraðir við gríska hraðbanka og hafa marg­ir millj­arðar evra hafa verið tekn­ir út úr hraðbönk­um og bönk­um í land­inu á und­an­förn­um vik­um. Þykir ljóst að Grikkir muni lenda í greiðslufalli á morgun.

Í tilkynningu frá Tsipras í gær kenndi hann Evrópska seðlabank­an­um um ófar­irn­ar. Seg­ir hann stofn­un­ina reyna að grafa und­an lýðræði í ríkj­um Evr­ópu­sam­bands­ins. Í ræðu sinni sagði Tsipras einnig að grísk­ir bank­ar og inni­stæður fólks væru ör­ugg­ og hvatti hann fólk til þess að halda ró sinni. Hann tók einnig fram að hann hefði óskað eft­ir áfram­hald­andi neyðaraðstoð frá kröfu­höf­um.

Enn hægt að ná samkomulagi

Jean-Clau­de Juncker, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, mun síðar í dag koma með tillögu um leið að samkomulagi á milli grískra ráðamanna og alþjóðlega lána­rdrottna Grikk­lands um skulda­vanda lands­ins.

Síðustu daga hafa fjár­málaráðherr­ar evru­ríkj­anna verið ákveðnir í að koma sam­an sam­komu­lagi á milli alþjóðlegra lán­ar­drottna Grikk­lands og rík­is­stjórn­ar lands­ins um lausn á skulda­vanda þess, en Juncker segir enn vera hægt að ná samkomulagi.

Frétt breska ríkisútvarpsins.

Alexis Tsipras í gær.
Alexis Tsipras í gær. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Kolaportið alltaf gott veður!
Góða veðrið og góða skapið er í KOLAPORTINU!...
Vantar þig kisu?
Vantar þig kisu? Hérna er úrval katta í heimilisleit;https://www.kattholt.is/kis...
Skúffa á traktorinn
Vönduð og sterkbyggð skúffa á þrítengið sem einnig er hægt að nota sem skóflu. ...
Greinakurlari
Glussastýrður greinakurlari fyrir traktor, www.hardskafi.is Sími 896 5486...