Hvað gera Grikkir?

Forseti Frakklands, François Hollande, og kanslari Þýskalands, Angela Merkel, munu hittast í París í dag og ræða þá stöðu sem komin er upp eftir að Grikkir höfnuðu þeim kjörum sem lánardrottnar landsins buðu. 

Hollande og Merkel munu funda yfir kvöldverði en áhrifa þjóðaratkvæðagreiðslunnar gætir víða á fjármálamörkuðum heims.

Fjármálaráðherra Frakklands, Michel Sapin, sagði í morgun að það væri í höndum grísku ríkisstjórnarinnar að koma með nýtt tilboð inn í viðræðurnar eftir að þjóðin hafnaði því tilboði sem stjórnvöldum stóð til boða. Þetta eru fyrstu opinberu viðbrögðin frá Frakklandi eftir að það lá ljóst fyrir að yfir 61% Grikkja hefðu sagt nei í atkvæðagreiðslunni.

„Atkvæðagreiðslan sjálf leysir engan vanda,“ segir Sapin og að stjórnvöld í Grikklandi verði að sýna það og sanna að þeim sé alvara með viðræðurnar. „Ef Grikkir leggja fram raunhæfar og áreiðanlegar tillögur þá geta traustar viðræður hafist í kjölfarið.“

Talsmaður frönsku ríkisstjórnarinnar, Stephane Le Foll, segir að enginn þeirra sem leiða viðræðurnar af hálfu evrusamstarfsins hafi áhuga á að reka Grikki út úr samstarfinu. „Það er ljóst að við verðum að komast aftur á þann stað að viðræður fari fram.“

Svo virðist sem væntingar hafi aukist á nýjan leik um að viðræðurnar geti skilað árangri eftir að fjármálaráðherra Grikklands, Yanis Varoufakis, ákvað óvænt að segja af sér í morgun. Allt bendir til þess að það hafi hann gert að áeggjan forsætisráðherra landsins, Alexis Tsipras.

En viðbrögð Frakka eru blendin líkt og annarra þjóða innan evrusamstarfsins. 

Alain Juppé, sem var ráðherra í ríkisstjórn hægriflokks Nicolas Sarkozys, hvetur til þess að Evrópusambandið hefji undirbúning að brotthvarfi Grikkja úr evrusamstarfinu. „Grikkland er ekki lengur fært um að fara að reglum evrusvæðisins,“ segir Juppé.

Aðstoðarkanslari Þýskalands, Sigmar Gabriel, sakar Tsipras um að hafa brotið allar brýr að baki samstarfs Evrópu og Grikklands og að það sé í höndum Grikkja sjálfra að byggja þær brýr að nýju.

„Með því að hafa reglum evrusvæðisins... er erfitt að ímynda sér viðræður um lán upp á fleiri milljarða evra,“ sagði Gabriel í viðtali við Tagesspiegel í gærkvöldi. 

Hlutabréfamarkaðir hafa brugðist hressilega við í morgun og eru rauðar tölur alls ráðandi, samkvæmt frétt Guardian. Þar kemur fram að Hollande og Merkel hafi rætt saman í síma í gærkvöldi og verið sammála um að virða beri niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Forseti framkvæmdastjórnar ESB, Jean-Claude Juncker, segir miklar líkur á brotthvarfi Grikkja út úr evrusamstarfinu eftir niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar en hann mun í dag eiga símafund með bankastjóra Seðlabanka Evrópu, Mario Draghi, Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins og yfirmanni evruhópsins, Jeroen Dijsselbloem.

Evran er völt í sessi í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar og að sögn Ayako Sera, sérfræðings hjá Sumitomo Mitsui Trust Bank, geta fjármálafyrirtæki fátt annað gert en að bíða og reyna að draga úr áhættunni vegna Grikklands.

„Evran er sköpunarverk stórra drauma um sameinaða Evrópu og ef þeir fara út úr evru-samstarfinu vakna upp spurningar um allt kerfið,“ segir Sera í viðtali við Bloomberg News.

Víðsvegar verður fundað um Grikkland í Evrópu í dag en fjármálaráðherrar Þýskalands og Frakklands ætla að ræða saman í Varsjá í Póllandi í dag og boðað hefur verið til leiðtogafundar evruríkjanna á morgun. Í Brussel verður fundað meðal fjármálasérfræðinga evrusamstarfsins og svo mætti lengi telja. Ljóst er að þrátt fyrir að óvissa ríki um framtíð Grikkja innan evru-samstarfsins þá er ljóst að staðan er viðkvæm þessa stundina.

Hjá Seðlabanka Evrópu sitja stjórnendur á rökstólum um hvort veita eigi grískum bönkum neyðarlán svo hægt verði að opna þá á nýjan leik á morgun en þeir hafa verið lokaðir í viku.

Forsætisráðherra Grikklands Alexis Tsipras fundar nú með formönnum grísku stjórnmálaflokkanna …
Forsætisráðherra Grikklands Alexis Tsipras fundar nú með formönnum grísku stjórnmálaflokkanna og forseta landsins í forsetahöllinni í Aþenu. AFP
AFP
Fjármálaráðherra Grikklands, Yanis Varoufakis hefur sagt af sér.
Fjármálaráðherra Grikklands, Yanis Varoufakis hefur sagt af sér. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina