Óttast upplausn í Grikklandi

AFP

Hætta er á upplausn í Grikklandi ef ekki næst samkomulag um næstu skref fljótlega, segir seðlabankastjóri Frakklands. Grikkir fengu í gær frest til þess að leggja fram raunhæfar tillögur að samkomulagi við lánardrottna.

„Gríska hagkerfið er á bjargbrún. Það er algjörlega nauðsynlegt að samkomulag náist á sunnudag því það verður of seint líði lengri tími og afleiðingarnar verða alvarlegar,“ sagði Noyer í viðtali við franska ríkisútvarpið í morgun. Hann óttast óeirðir og upplausn í landinu.

Pierre Moscovici, sem fer með efnahagsmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, telur að enn sé mögulegt að ná samkomulagi við Grikki en það sé í höndum grískra stjórnvalda að leggja fram raunhæfar tillögur þar að lútandi og koma með að samningsborðinu við önnur evruríki. 

„Ég tel að það verði að finna lausn á sunnudag og ég trúi því að það sé hægt,“ sagði Moscovici í viðtali við France 2 sjónvarpsstöðina í morgun. „Boltinn er klárlega í búðum grískra stjórnvalda.“

Á sunnudag munu fulltrúar allra ESB-ríkjanna 28 hittast á fundi þar sem væntanlegt tilboð Grikkja verður rætt, segir í frétt BBC. Fréttamaður BBC í Brussel, Chris Morris, segir að Grikkjum hafi verið settir úrslitakostir, annaðhvort verður um samkomulag að ræða eða Grikkland og bankakerfi landsins fara á hliðina á mánudag.

Moscovici segir að Grikkland sé ómissandi innan bandalagsins og að koma verði í veg fyrir brotthvarf ríkisins úr evrusamstarfinu. 

Bloggari á Guardian hvetur fólk sem vill sýna Grikkjum stuðning til þess að fara þangað í sumarleyfi enda einn ódýrasti valkosturinn þegar kemur að leyfi í Evrópu þessa dagana.

Hann segist ítrekað vera spurður hvers vegna Grikkir hætti ekki þessu voli og reyni að greiða skuldir sínar. Það sé niðurdrepandi að uppgötva að margir haldi í raun og veru að það séu rúmdýnur fullar af evrum í Grikklandi og að vegna öfgafullrar vinstristefnu þá vilji fólk ekki leggja sitt af mörkum. 

Alex Andreou, sem er fæddur í Grikklandi og er með bakgrunn í lögfræði og hagfræði, samkvæmt Guardian, segir að Grikkir fái mestu aðstoðina með því að fólk sæki landið heim. Veðrið sé frábært, fornminjar á hverju strái og strendurnar töfrum líkastar svo ekki sé talað um matinn. Eins er verðlagið afar hagstætt og enn ódýrara að dvelja þar en oft áður.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina