Sjórinn flæddi yfir líkið á ströndinni

Hanna Witheridge og David Miller fundust nokkra metra hvort frá öðru, næstum nakin, á strönd á eyjunni Koh Tao í september á síðasta ári. Witheridge, sem var 23 ára, hafði verið nauðgað og beitt líkamlegu ofbeldi. Miller, 24 ára, drukknaði í sjónum eftir að hafa hlotið höfuðáverka.

Réttarhöld í máli bresku ferðamannanna hófust í Tælandi í morgun. Tveir menn eru sakaðir um að bera ábyrgð á dauða fólksins. Lögreglumaðurinn sem fann Witheridge og Miller bar fyrstur vitni en hann kom á vettvang klukkan hálfsjö að morgni til.

„Ég fann lík karlmanns á ströndinni og sjórinn flæddi yfir það. Síðan fann ég lík konunnar bak við kletta,“ sagði lögreglumaðurinn. Á klettunum voru blóðslettur. Merki voru um líkamlegt ofbeldi á báðum líkunum og virtist konunni hafa verið nauðgað.

Mennirnir tveir sem ákærðir eru fyrir morðin eru báðir 22 ára farandverkamenn frá Búrma og störfuðu þeir ólöglega í landinu. Þeir komu fyrir dóminn í morgun klæddir appelsínugulum búningum og voru fætur þeirra hlekkjaðir. Ekki er von á dómi í málinu fyrr en í október á þessu ári. Verði mennirnir fundnir sekir gætu þeir átt yfir höfði sér dauðarefsingu en þeir eru ákærðir fyrir rán, morð og nauðgun. 

Lögregla segir lífssýni mannanna hafa fundist á vettvangi. Þeir játuðu á sig brotin eftir að þeir voru handteknir en drógu játningarnar fljótlega til baka. Segjast þeir hafa verið píndir til að játa og að þeir séu saklausir.

Hannah Witheridge og David Miller voru myrt í Taílandi í …
Hannah Witheridge og David Miller voru myrt í Taílandi í september. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert