Forsætisráðherra ákærður fyrir fjársvik

Victor Ponta sést hér yfirgefa skrifstofu ríkissaksóknara í morgun.
Victor Ponta sést hér yfirgefa skrifstofu ríkissaksóknara í morgun. AFP

Ríkissaksóknari Rúmeníu hefur ákært forsætisráðherra landsins, Victor Ponta fyrir aðild að spillingarmáli. Háværar raddir eru um að forsætisráðherrann verði að segja af sér.

Ponta er ákærður fyrir fjársvik, skattsvik og peningaþvætti á árunum 2007-2011. Hann varð forsætisráðherra árið 2012.

Samkvæmt upplýsingum frá saksóknara hefur hald verið lagt á hluta eigna hans. Embættið sendi frá sér tilkynninguna um ákæruna skömmu eftir að Ponta hafi komið á fund saksóknara. Heimildir herma að Ponta hafi neitað að svara spurningum saksóknara. 

Ponta snéri aftur til starfa á fimmtudag eftir að hafa dvalið í Tyrklandi í mánuð þar sem hann fór í aðgerð á hné. Í gær greindi hann frá því að hann ætlaði að hætta sem formaður Jafnaðarmannaflokksins vegna ásakana um spillingu en að hann myndi ekki láta af embætti forsætisráðherra.

Saksóknari reyndi að fá friðhelgi Ponta aflétt þar sem embættið taldi að hann hefði brotið lög eftir að hann tók við embætti forsætisráðherra en meirihluti þingmanna, þar sem flokkur Ponta er í meirihluta, hafnaði beiðni saksóknara.

Ponta hefur neitað ásökunum staðfastlega og heitið því að vinna með saksóknara við rannsóknina. Peningaþvættið og skattsvikin tengjast starfi hans sem lögfræðingur. Hann er sakaður um að hafa þegið um 55 þúsund evrur frá Dan Sova, flokksbróður sínum og þingmanni, en hann er einnig grunaður um lögbrot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert