Ekki bíómynd heldur flótti

Eiturlyfjabaróninn Joaquín „El Chapo“ Guzmán stikar um gólf í klefa sínum og virðist taugaveiklaður áður en hann beygir sig niður bak við lágan vegg sturtunnar og hverfur. Þetta er ekki atriði úr spennumynd heldur atriði úr öryggismyndavél fangelsisins sem Guzmán flúði úr á laugardagskvöldið.

Myndskeiðið var birt seint í gærkvöldi en þar sést Guzmán stikla fram og til baka í klefa sínum þrisvar áður en hann fór inn í sturtuna. Yfirmaður þjóðaröryggismála, Monte Alejandro Rubido, segir þetta mjög eðlilegt og algengt atferli meðal fanga. 

Holan litla í sturtugólfinu þar sem Guzmán lét sig hverfa á laugardagskvöldið sést ekki í gegnum þröngt sjónarhorn öryggismyndavélarinnar sem var í gangi allan sólarhringinn. Eins sést ekki á myndskeiðinu þegar hann tekur af sér eftirlitsarmbandið.

Rubido segir að síðast hafi sést til Guzmáns klukkan 20:52 en upplýsir ekki um hversu langur tími leið þar til fangaverðir urðu þess varir að hann væri flúinn.

Annar flótti Guzmans úr fangelsi á aðeins fjórtán árum þykir afar niðurlægjandi fyrir forseta landsins, Enrique Peña Nieto og ríkisstjórn hans. Enda hafði forsetinn og ráðamenn mexíkósku þjóðarinnar fagnað handtöku eiturlyfjabarónsins fyrir aðeins 17 mánuðum síðan.

Víðtæk leit stendur enn yfir en ekkert hefur til hans spurst frá því á laugardagskvöldið. Ríkissaksóknari hefur tilkynnt að 22 fangaverðir við Altiplano fangelsið hafi fengið stöðu grunaðs í málinu en talið er að þeir hafi veitt aðstoð við flóttann. Aftur á móti hefur tólf öðrum verið sleppt úr haldi en þeir hafa verið í haldi lögreglu frá því á sunnudag. Ekki hefur verið upplýst um hverjir þeir eru en hafa má í huga að Guzmán er talinn bera ábyrgð á dauða 34 þúsund manns og einn ríkasti maður Mexíkó. 

Stilla úr klefa Guzmáns
Stilla úr klefa Guzmáns AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert