Ár og milljón Bandaríkjadala?

Sturtan í klefa El Chapo og opið niður í göngin.
Sturtan í klefa El Chapo og opið niður í göngin. AFP

Það eina sem liggur fyrir varðandi flótta eiturlyfjabarónsins Joaquín Guzmán Loera, El Chapo, úr hámarksöryggisfangelsi er að hann er horfinn og að á flóttanum notaðist hann við fagmannlega gerð göng.

Enginn veit hvar hann er niðurkominn, né hverjir samverkamenn hans eru, en hvað varðar tíma og kostnað vegna gangasmíðanna hljóðar ein ágiskunin upp á eitt ár og milljón Bandaríkjadala.

Maður rannsakar göngin sem El Chapo notaði til að flýja …
Maður rannsakar göngin sem El Chapo notaði til að flýja Altiplano-fangelsið í Almoloya de Juarez. AFP

„Sjáðu til, það er svartur markaður fyrir þessa hluti,“ hefur New York Times eftir Walter Lopez, forseta College of Civil Engineers í Sinaloa, heimaríki Guzmán. „Að negla þetta nákvæmlega niður er ómögulegt.“

Útreikningar Lopez ná ekki til landsins þar sem Guzmán kom upp úr göngunum, né hinnar ókláruðu byggingar sem var reist yfir gangaopinu. Hann fullyrðir hins vegar að hvernig sem flóttann bar að, var verkfræðingur með í ráðum á einhverjum tímapunkti.

Viðarstigi liggur upp úr göngunum undir húsinu sem var byggt …
Viðarstigi liggur upp úr göngunum undir húsinu sem var byggt ofan á gangaopið. AFP

Um var að ræða vel skipulagða aðgerð. Göngin eru um 1,5 km og liggja u.þ.b. 10 metra neðanjarðar. Samverkamenn eiturlyfjabarónsins notuðu vélhjól til að flytja á brott um 4 tonn af jarðvegi, og komu fyrir ljósabúnaði og loftræstingu.

„Þetta var mjög tæknilegt og nákvæmt,“ segir einn verkfræðingur sem starfar fyrir stjórnvöld um flóttann. „Ef þeir hefðu misreiknað sig um eina gráðu, eða gert ein lítil mistök, hefði Chapo komið upp í eldhúsi einhvers.“

Opið þar sem komið er upp úr göngunum í húsinu.
Opið þar sem komið er upp úr göngunum í húsinu. AFP

Yfirvöld hafa heimilað blaðamönnum að skoða göngin, en til að komast ofan í þau úr hálfkláraða húsinu þar sem Guzmán kom upp, þarf að klifra beint niður viðarstiga. Leiðin liggur framhjá rými þar sem liggja nokkrar dýnur og rafall, sem hefur verið skilinn eftir.

Þegar niður er komið má sjá vélhjólið og rauða hlustunarpípu, sem enginn veit til hvers var notuð. Hinum meginn, í klefa El Chapo, er einfalt skrifborð, rúm, vaskur og mjaðmahár veggur. Handan hans er sturtan, og þar fyrir neðan göngin.

Þeir sem hafa upplýsingar um hvar El Chapo er niðurkominn …
Þeir sem hafa upplýsingar um hvar El Chapo er niðurkominn eiga í vændum fundarlaun upp á 3,8 milljónir Bandaríkjadala. AFP

Leiða má líkur að því að nokkur sérfræðikunnátt liggi að baki flóttanum, en arkitektar hans hafa m.a. þurft að búa yfir þekkingu varðandi landið og jarðveginn umhverfis fangelsið og kunnáttu til að smíða göngin þannig að þau enduðu á réttum stað og féllu ekki saman. En líkt og fyrr segir, er fátt vitað um hverjir komu að máli né hvar þá er nú að finna.

Umfjöllun New York Times.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert