Árásin á MH17 fyrir glæpadómstól?

Ástvinir ástralskra farþega vélarinnar komu saman við minningarathöfn í Canberra.
Ástvinir ástralskra farþega vélarinnar komu saman við minningarathöfn í Canberra. AFP

Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, segir það „siðferðilega skyldu“ að draga þá til ábyrgðar sem myrtu 298 manns þegar farþegaþotan í flugi MH17 var skotið niður í austurhluta Úkraínu fyrir ári.

„Siðferðileg skylda okkar við minningu hinna látnu er að tryggja réttláta refsingu yfir þeim sem eru sekir um að hafa skotið niður vélina. Þessi glæpur jafngildir ógnun gagnvart alþjóðasamfélaginu eins og það leggur sig,“ sagði Poroshenko.

Forsetinn sagði að Boeing 777-vél Malaysia Airlines hefði verið skotin niður frá jörðu, og að aðskilnaðarsinnar, sem eru grunaðir um að hafa framkvæmt árásina, hefðu ekki getað komist yfir vopn til verksins nema fyrir tilstilli háttsettra manna innan rússneska stjórnkerfisins.

Sagði hann að verknaðurinn hefði ekki átt sér stað nema fyrir þátttöku, og raunar fyrirskipun, frá stjórnmála- og hernaðarforystunni í Rússlandi.

Yfirvöld í Rússlandi hafa neitað því að hafa séð aðskilnaðarsinnum fyrir Buk-flugskeytum af því tagi sem talið er að notuð hafi verið í árásinni. Þau hafa ennfremur hafnað því að hafa átt þátt í átökum innan landamæra Úkraínu.

Poroshenko ítrekaði stuðning sinn við hugmyndir um að komið verði á fót glæpadómstól um árásina á MH17 á vegum Sameinuðu þjóðanna. Vladimir Pútín, forseti Rússlands, segir hugmyndina hins vegar „öfugverkandi“, en ekki hefur fengist staðfest hvort Rússland myndi grípa til neitunarvalds í öryggisráðinu ef málið yrði tekið fyrir þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert