Bandaríkin ekki bandamenn Írans

Ayatollah Ali Khamenei, erkiklerkur og æðsti leiðtogi Írans, segir að samkomulagið um kjarnorkuáætlun landsins, sem náðist seinasta þriðjudag, muni ekki hafa nein áhrif á samskipti Írana og Bandaríkjanna.

Engra breytinga sé að vænta.

„Við höfum ávallt sagt að við munum ekki ná samkomulagi við Bandaríkin um neitt sem varðar alþjóðleg eða innlend málefni,“ sagði hann í dag. Samningurinn um kjarnorkuáætlunina væri þó undantekning. Hann hjónaði einnig hagsmunum Írana.

Stórveldin sex, Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína, Rússland og Þýskaland, náðu á þriðjudaginn samningum við stjórnvöld í Íran. Samningurinn felur meðal annars í sér að Íranar hægi á kjarnorkuáætlun sinni gegn því að viðskiptaþvinganir Vesturlandanna gagnvart þeim verði afnumdar.

Khamenei ítrekaði að Bandaríkin væru ekki vinir Írans. Þrátt fyrir samninginn myndi stefna landsins gegn hinum „hrokafullu“ Bandaríkjamönnum ekki breytast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert