Kjarnorkusamkomulag fyrir bandaríska þingið

John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir þetta vera síðasta tækifærið til …
John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir þetta vera síðasta tækifærið til þess að semja við Írani.

Kjarnorkusamkomulag Bandaríkjanna og Íran hefur nú verið sent til fulltrúadeildar bandaríska þingsins til samþykktar. Hefur þingið 60 daga frest til þess að afgreiða málið.

Ísraelsmenn og stuðningsmenn þeirra hafa gagnrýnt samkomulagið af miklum krafti. „Ég tel það eina rétta í stöðunni sé að samþykkja þetta ekki,“ segir Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, í samtali við CBS.

Þá eru bandarísku hagsmunasamtökin AIPAC sögð ætla að eyða 20-40 milljónum Bandaríkjadollurum til þess að reyna að koma í veg fyrir að samkomulagið verði samþykkt. Önnur hagsmunasamtök frjálslyndra Gyðinga ætla hins vegar að berjast fyrir því að samkomulagið verði samþykkt.

Ákveði fulltrúadeildin að samþykkja ekki samkomulagið hefur Barack Obama Bandaríkjaforseti hótað að beita neitunarvaldi sínu. Geri hann það þurfa andstæðingar hans 2/3 meirihluta í báðum deildum þingsins til þess að fella úr gildi þá ákvörðun hans.

John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna var í athyglisverðu útvarpsviðtali í gærmorgun þar sem hann tók til varna fyrir samkomulagið. Segir hann Írana hafa verið aðeins tveimur mánuðum frá því að hafa þróað kjarnorkuvopn þegar samræðurnar hófust á milli ríkjanna. „Verði þetta samkomulag fellt á þinginu þá höfum við engan rétt til þess að fylgjast með kjarnorkuþróun þeirra og þá erum við í lélegri samningsstöðu. Við munum aldrei fá nýtt tækifæri til þess að semja við Írana,“ sagði Kerry.

Búist er við að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykki samkomulagið fyrir sitt leiti í dag. Atkvæðagreiðslan er sögð vera aðeins formsatriði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert