Grunaðir um hrottaleg morð

Tveir Burmamenn, sem hafa verið ákærðir fyrir að myrða tvo breska ferðamenn á strönd í Taílandi, sjást á upptökum öryggismyndavéla spila á gítar og reyja nærri vettvangi glæpsins. Þetta kom fram fyrir dóm í dag, þar sem verjendur mannanna reyndu að véfengja sönnunargögn í málinu.

Farandverkamennirnir Zaw Lin og Win Zaw Tun eru grunaðir um að hafa myrt David Miller, 24 ára, og nauðgað og myrt Hönnuh Witheridge, 23 ára, á eyjunni Koh Tao í september sl. Báðir hafa lýst yfir sakleysi, en eiga dauðarefsingu yfir höfði sér ef þeir verða fundnir sekir.

Málið hefur varpað rýrð á orðspor Taílands sem ferðamannaparadísar og þá hefur lögregla verið sökuð um að klúðra rannsókninni.

Saksóknarar segja erfðaefni benda til sektar hinna 22 ára sakborninga en verjendur þeirra segja að verið sé að gera þá að blórabögglum vegna þrýstings frá lögreglu og á grundvelli falskra játninga.

Á upptökunum sem sýndar voru í dómsal mátti sjá ferðafólkið njóta kvöldstundar í vinahóp. Ákæruvaldið segir að Zaw Lin og Win Zaw Tun hafi vakið athygli yfirvalda eftir að sömu upptökur sýndu þá spila á gítar og reykja með vinum á sömu strönd.

Lík Witheridge og Miller fundust í nálægum grjótgarði að morgni 15. september. Að sögn lögreglu hafði Miller verið sleginn einu sinni í höfuðið og skilinn eftir í grynningum þar sem hann drukknaði, en Witheridge var nauðgað og síðan barin til dauða með arfasköfu.

Zaw Lin.
Zaw Lin. AFP
Win Zaw Tun.
Win Zaw Tun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert