Minni upphæðir í húfi en talið var?

Samkomulagið um kjarnorkuáætlun Íran er afar umdeilt og enn á …
Samkomulagið um kjarnorkuáætlun Íran er afar umdeilt og enn á eftir að koma í ljós hvort það hlýtur samþykki á bandaríska þinginu. AFP

Valiollah Seif, seðlabankastjóri Íran, segir ríkið eiga eignir sem nema 29 milljörðum Bandaríkjadala í erlendum bönkum, sem gætu mögulega endurheimst í kjölfar samkomulags um kjarnorkuáætlun landsins. Um er að ræða mun lægri upphæð en menn hafa áætlað, en rætt hefur verið um að erlendar bankainnistæður Íran næmu 100 milljörðum dala.

Seif sagði að eignirnar samanstæðu af 23 milljörðum í erlendum gjaldeyri sem væri í eigu seðlabankans, og 6 milljörðum í eigu ríkisins. Ummæli Seif, sem voru látin falla í viðtali við íranska ríkissjónvarpið á laugardag, gefa til kynna að fyrrnefnt samkomulag sé ekki nær því eins ábótasamt fyrir írönsk stjórnvöld og áður var talið.

Seðlabankastjórinn sagði að inni í tölunni 100 milljarðar væru 35 milljarðar sem hefði þegar verið úthlutað til olíuverkefna og 22 milljarðar sem lægju inni í kínverskum bönkum sem trygging vegna vörukaupa.

Andstæðingar kjarnorkusamkomulagsins, þeirra á meðal stjórnvöld í Ísrael, segja að það muni gera Írönum kleift að fá aðgang að fé sem þeir muni nota til að styrkja herská samtök í Mið-Austurlöndum.

Íranir hafa látið mikið fé af hendi rakna til Sýrlandsstjórnar, sem hafa átt í borgarastyrjöld við uppreisnarmenn í fjögur ár. En Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, segir að aflétting refsiaðgerða muni leiða til þess að auknir fjármunir muni streyma frá Íran til samtaka á borð við Hezbollah, Hamas og Islamic Jihad.

Stjórnvöld í Íran segja hins vegar að peningunum verði varið í innlenda fjárfestingu í olíu- og gasiðnaðinum. Seif sagði einnig að Íran hefði áhuga á að opna frekar á erlenda fjárfestingu, eða sem næmi 200-300 milljörðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert